Sigur hjá Patreki - Argentína kom á óvart

Austurríkismaðurinn Boris Zivkovic sækir að marki Sádi-Araba í leiknum í …
Austurríkismaðurinn Boris Zivkovic sækir að marki Sádi-Araba í leiknum í dag. AFP

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu hófu heimsmeistaramótið í handknattleik í dag með öruggum sigri gegn Sádi-Aröbum í C-riðli keppninnar í Herning í Danmörku, 29:22.

Staðan í hálfleik var 15:9, Austurríkismönnum í hag og þeir voru með mjög öruggt forskot allan síðari hálfleikinn. Þetta var eitthundraðasti leikur austurríska landsliðsins undir stjórn Patreks.

Danir unnu Síle 39:16 í fyrsta leik riðilsins í gærkvöld og Norðmenn mæta Túnis í þriðja leiknum í kvöld.

Argentínumenn komu skemmtilega á óvart þegar þeir gerðu jafntefli við Ungverja, 25:25, í D-riðli mótsins í Kaupmannahöfn. Þar með eru tvenn óvænt úrslit komin í þeim riðli því Angóla lagði Katar 24:23 fyrr í dag. Svíar mæta Egyptum í kvöld.

Serbar og Rússar gerðu jafntefli, 30:30, í æsispennandi leik í A-riðlinum í Berlín en líklegt þykir að þessi lið séu einmitt í baráttu um þriðja sætið og að komast í milliriðil. Þjóðverjar unnu Kóreu 30:19 í fyrsta leik riðilsins í gær og Frakkar mæta Brasilíu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert