Sjöunda sæti tryggir þátttökurétt í forkeppni ÓL 2020

Íslenska landsliðið hefur að mörgu að keppa á HM
Íslenska landsliðið hefur að mörgu að keppa á HM mbl.is/Hari

Liðið sem stendur uppi sem sigurvegari á heimsmeistaramótinu 2019 tryggir sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum sem fram fara í Japan á næsta ári. Þau lið sem hafna í öðru til sjöunda sæti öðlast þátttökurétt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana sem verður haldin í apríl á næsta ári.

Liðin sex sem hafna í öðru til sjöunda sæti verða dregin í þrjá riðla ásamt liðum frá Asíu, Afríku og Ameríku.

Að riðlakeppninni lokinni í vor tryggja tvö efstu lið hvers riðils sér farseðilinn á Ólympíuleikana í Japan en alls taka tólf lið þátt í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í karlaflokki.

Hin liðin sem taka þátt í Ólympíuleikunum verða auk gestgjafanna álfumeistarararnir fjórir frá Evrópu, Asíu, Afríku og Ameríku.

Þetta fyrirkomulag á forkeppni Ólympíuleikanna var tekið upp 2008 og hefur íslenska landsliðið í tvígang komist áfram upp úr forkeppninni, árin 2008 og 2012. Árið 2016 komst íslenska liðið ekki í forkeppni ÓL.

Eitt sæti verður enn í boði

Ekki er þó öll nótt úti fyrir lið frá Evrópu að komast í forkeppni Ólympíuleikanna þótt þau nái ekki einu af sjö efstu sætunum á HM. Eitt lið frá Evrópu kemst í forkeppnina að loknu Evrópumeistaramótinu sem haldið verður að ári liðnu, þ.e. að undanskildum Evrópumeisturunum, það lið sem nær bestum árangri fyrir utan þau sem þegar hafa komist áfram frá Evrópu með því að hafna í öðru til sjöunda sæti á HM í Þýskalandi og Danmörku. iben@mbl.is

Greinin er úr HM-blaði Morgunblaðsins sem fylgdi blaðinu miðvikudaginn 9. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert