Skipulagt og leikreynt lið Króata

Luka Cindric og Ómar Ingi Magnússon mætast í dag.
Luka Cindric og Ómar Ingi Magnússon mætast í dag. Ljósmynd/Uros Hocevar

Króatar mæta með allar sínar helstu kempur til leiks á heimsmeistaramótið í handknattleik og ljóst að þeir munu hvergi draga af sér þegar liðið mætir Íslandi í fyrsta leik í München klukkan 17. Króötum er mikilvægt að byrja vel því þá kemur stemningin með þeim sem er þeim svo mikilvæg og drífur þá oftast áfram.

Að sögn króatískra fjölmiðlamanna sem eru í München er gott ástand á leikmönnum liðsins, ekki síst þeim sterkustu eins og leikstjórnandanum Luka Cindric, sem oft er talað um þegar minnst er á fremstu handknattleiksmenn heims. Hann getur auðveldlega sprengt vörn andstæðinganna með leiftursnöggum hreyfingum sínum auk þess að hafa einstaka yfirsýn yfir leikinn. Stórskyttan Domangoj Duvnjak hefur lengi verið í allra fremstu röð. Duvnjak er burðarás þýska liðsins THW Kiel og hefur lengi verið í stóru hlutverki hjá Alfreð Gíslasyni, sem hefur miklar mætur á Duvnjak.

Vinstri hornamaðurinn Manuel Strlek er annar erfiður leikmaður liðsins; bregst yfirleitt ekki skot og er einnig öflugur hraðaupphlaupsmaður. Örvhenta skyttan Luka Stepancic leikur ekki með stórliði Paris SG nema af þeirri ástæðu einni að hann er ein fremsta skytta handboltans um þessar mundir. Zlatko Horvat, Alen Blazevic, Ivan Sliskovic og svona væri lengi hægt að telja þá frábæru handknattleiksmenn sem Króatar eiga.

Lið Króata hefur lengi leikið saman lítið breytt; helst að skipt hafi verið um markverði en sú staða hefur á tíðum verið veikleiki liðsins.

Nánar er farið yfir Króata, andstæðinga Íslands í dag, í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. Leikurinn hefst klukkan 17 og er í beinni textalýsingu á mbl.is.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »