Þriggja ára á fyrsta stórmótinu

Viktor ásamt Heiðrúnu og dótturinni.
Viktor ásamt Heiðrúnu og dótturinni. Ljósmynd/Aðsend

„Það er vel passað upp á það að allir séu í réttum litum og vel málaðir,“ segir Viktor Lekve, sem staddur er í Ólympíuhöllinni í München á leik Íslands og Króatíu á HM í handbolta.

„Það er allt að verða vitlaust hérna. Sérsveitin stjórnar stemmningunni gríðarlega vel og við erum að hita upp raddböndin fyrir leik,“ sagði hann er stuðningsmenn hituðu upp fyrir leikinn í stúkunni. 

Viktor er staddur í München ásamt konunni sinni, Heiðrúnu Evu, og þriggja ára dóttur þeirra. „Við ákváðum að fara með stelpuna á fyrsta stórmótið,“ segir Viktor, sem er uppeldisbróðir Bjarka Más Elíssonar, hornamanns í landsliðinu.

Hann segist hafa séð einhverja Króata á svæðinu, en tugir þúsunda Króata búa í München. „Við lentum einmitt á Uber-bílstjóra frá Króatíu í gær.“

Fjölskyldan ætlar að vera í Þýskalandi yfir riðlakeppnina en Viktor efast um að vinnan leyfi að þau verði lengur, komist strákarnir upp úr riðlinum. „En það er náttúrulega draumurinn að geta fylgt þeim alla leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert