Treyjur í Þýskalandi en ekki á Íslandi

Kjartan Már Hallkelsson ásamt fræknu föruneyti í nýju íslensku treyjunum.
Kjartan Már Hallkelsson ásamt fræknu föruneyti í nýju íslensku treyjunum. Ljósmynd/Aðsend

Sala á nýjum treyjum íslenska handboltalandsliðsins er hafin á veitingastaðnum Seerestaurant skammt frá Ólympíuhöllinni í München í Þýskalandi þar sem Ísland etur kappi við Króatíu á HM í handbolta síðar í dag. Að sögn Kjartans Vídó Ólafssonar, markaðsstjóra HSÍ, hefur salan gengið vel.

„Traffíkin er búin að vera góð og við verðum hérna til klukkan 17 í dag,“ segir Kjartan, en leikurinn hefst klukkan 18 að staðartíma. „Fólkið sem lenti í morgun er byrjað að tínast inn og stuðið hjá Sérsveitinni er að byrja uppi í höll.“

Kjartan býst við því að traffíkin aukist þegar nær dregur leiknum. HSÍ pantaði nokkur hundruð treyjur fyrir mótið og verða þær seldar fyrir leiki Íslands á mótinu þar til þær klárast. Talið er að Íslendingar verði hátt í 700 talsins á leiknum á eftir.

Nýju landsliðstreyjurnar náðu ekki til Íslands fyrir mótið og eru stuðningsmenn ytra því þeir einu sem býðst að kaupa treyjurnar fyrir mótið. „Því miður náðist það ekki. Það er átta vikna framleiðsluferli á þessu og það hafðist ekki að koma þeim til Íslands.“

Hóflegar væntingar fyrir leikinn

Nafni Kjartans frá fyrirtækinu Áfram Ísland, Kjartan Már Hallkelsson, er einnig á Seerestaurant þar sem hann er með ýmsan varning merktan íslenska fánanum til sölu. „Ég er með fána, trefla, húfur, svitabönd, andlitsmálningu og allt þetta helsta.

Þetta hefur gengið mjög vel, fín stemning og hóflegar væntingar fyrir leikinn,“ segir Kjartan Már. „Hér hefur verið stöðugur straumur og á líklega eftir að aukast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert