Förum bjartsýnir í Spánarleikinn

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Menn komust heilir frá leiknum en sannarlega kostaði viðureignin mikla orku, hún reyndi mikið á en næsti leikur mun einnig gera það,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, á fundi með fjölmiðlamönnum á hóteli landsliðsins í München í hádeginu í dag.

Íslenska landsliðið kemur saman til æfingar í Ólympíuhöllinni í München síðar í dag en áður fundar liðið með þjálfara sínum þar sem formlegur undirbúningur hefst fyrir næsta leik Íslands á HM, gegn Spánverjum annað kvöld klukkan 18. Lagt verður á ráðin á fundinum og unnið úr þeim atriðum á æfingunni þar sem strengirnir verða stilltir fyrir viðureignina við Evrópumeistarana.

„Það eru möguleikar í stöðunni hjá okkur. Ég tel okkur eiga þá. Við förum fullir bjartsýnir í leikinn við Spánverja. Við sýndum það lengst af í leiknum við Króata að við eigum fullt erindi í bestu liðin en til þess verður líka allt að ganga upp hjá okkur, en frammistaðan gaf okkur sjálfstraust,“ sagði Guðmundur Þórður.

Guðmundur segir ljóst að fram undan sé annar átakaleikur eins og við Króata í gær. Spánverjar, sem eru ríkjandi Evrópumeistarar, hafa valinn mann í hverju rúmi. Þeir séu stórir og þungir, ekki síst skytturnar og línumennirnir, en þeirra þekktastur er Julen Aginagalde, sem hefur verið lengi að.

„Við verðum að búa okkur undir að mæta tvenns konar varnarleik, annars vegar agressívri 5/1 vörn og síðan hefðbundinni 6/0 sem olli okkur vandræðum síðasta þegar við mættum þeim,“ sagði Guðmundur sem þegar hefur skoðað leik Spánverja við Bareinbúa í gær. „Ég veit ekki alveg hversu mikið er að marka þann leik og hvort Spánverjar hafi eitthvað haldið aftur af sér,“ sagði Guðmundur Þórður. Spánverjar unnu Bareina með 10 marka mun, 33:23, en lengst af leiksins var munurinn talsvert minni.

Guðmundur sagðist hafa skoðað vel upptöku af leik Íslands og Króatíu í gær og þar hafi ekki margt nýtt komið fram sem hann sagði ekki í viðtölum strax að leiknum loknum. „Á köflum var varnarleikurinn ekki nógu góður. Vörnin slitnaði oft í sundur og þá var skortur á hjálparvörn á köflum. Við verðum að gera bót á í viðureigninni við Spánverja á morgun. Eins fengum við í tvígang á okkur brottvísanir sem voru algjörlega óþarfar. Hver brottvísun er dýr,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, m.a. á fundi með fjölmiðlum á Hilton hótelinu í München í hádeginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert