Rússíbanareið Bjarka Más

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. mbl.is/Uros Hocevar

„Síðustu dagar hafa verið sannkölluð rússíbanareið hjá mér allt frá því að vera í fríi heima á Íslandi yfir í að hjálpa til í vináttulandsleikjum og sem endar svo á að maður er í byrjunarliðinu á fyrsta leik á heimsmeistaramóti. Ég viðurkenni fúslega að ég var stressaður fram að leiknum við Króata,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrr í dag á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í München, spurður hvernig honum hafi liðið í leiknum við Króata í gærkvöld.

„Ég reyndi bara að róa mig eins og kostur var þegar út í leikinn var komið. Sumt hefði ég viljað gera betur en með annað var ég ánægður,“ sagði Bjarki sem var ekki inni í myndinni varðandi landsliðið og HM á fyrsta degi nýs árs.

Bjarki lék allan leikinn og skorað fjögur mörk í sex skotum. „Stefán Rafn Sigurmannsson var veikur í aðdraganda mótsins og þess vegna kom það kannski í minn hlut að leika allan leikinn. Það er reyndar sama og ég hafði gert síðustu vikurnar fyrir áramót með Füchse Berlin svo það er ekkert  sem ég er ekki vanur og var bara gaman þegar á hólminn var komið,“ sagði Bjarki Már sem er farinn að búa sig undir leikinn við Evrópumeistara Spánverja annað kvöld sem er næsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu. Reikna má með að sú viðureign verði erfið og útheimti mikla orku hjá leikmönnum íslenska liðsins.

„Spánverjar eru með eitt af þremur bestu landsliðum heims um þessar mundir enda ríkjandi Evrópumeistarar. Lið þeirra er skipað ótrúlega góðum handboltamönnum sem eru afar seigir í leiknum. Ég held að Spánverjar séu sterkari en Króatar ef eitthvað er,“ sagði Bjarki Már sem tók þátt í síðustu viðureign Íslands og Spánar sem fram fór á HM í Frakklandi fyrir tveimur árum. Spánverjar höfðu þá betur, 27:21.

„Ef ég man rétt þá stóðum við í þeim í fyrri hálfleik en síðan skildu gæðin á milli liðanna þegar kom fram í síðari hálfleik. Á þeim tíma vorum við ekki komnir eins langt sem lið og núna. Vonandi tekst okkur að halda lengur út gegn þeim að þessu sinni,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is.

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. Ljósmynd/Uros Hocevar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert