Lítt árennilegir Evrópumeistarar

Joan Canellas er þrautreyndur lykilmaður Spánverja og er hér í …
Joan Canellas er þrautreyndur lykilmaður Spánverja og er hér í leiknum við Barein þar sem spænska liðið sigraði 33:23 eftir nokkurn barning fram í seinni hálfleikinn. AFP

Evrópumeistarar Spánverja eru að vanda með óárennilegt lið sem er til alls líklegt á heimsmeistaramótinu. Spánverjar urðu síðast heimsmeistarar á heimavelli fyrir sex árum. Sem ríkjandi Evrópumeistarar þá sætta Spánverjar sig varla við fimmta sæti eins og urðu örlög þeirra á HM fyrir tveimur árum.

Opinberlega segjast Spánverjar þó fyrst og fremst stefna á að hafna í einu af sjö efstu sætunum og komast að minnsta kosti í umspilskeppni Ólympíuleikanna á næsta ári.

Undir stjórn Jordi Ribera, sem tók við þjálfun landsliðsins haustið 2016 eftir Ólympíuleikana í Ríó, fóru Spánverjar alla leið á EM fyrir ári og unnu öruggan sigur m.a. á Svíum í úrslitaleik.

Síðast mætti íslenska landsliðið því spænska á stórmóti þegar HM fór fram í Frakklandi fyrir tveimur árum.

Eftir jafnan fyrri hálfleik voru spænsku leikmennirnir fljótir að stigna af í síðari hálfleik og vinna öruggan sigur með sex marka mun, 27:21.

Sem endranær er valinn maður í hverju rúmi á spænsku skútunni. Markverðirnir Gonzalo Pérez de Vargas og Rodrigo Corrales leika hvorki meira né minna en með stórliðunum Barcelona og Paris SG.

Jordi Ribera fylgist með lærisveinum sínum í leiknum við Barein …
Jordi Ribera fylgist með lærisveinum sínum í leiknum við Barein á föstudaginn. AFP

Meðal annarra er línumaðurinn Julen Aginagalde, heljarmenni að burðum, sem gefur ekkert eftir þótt aldurinn færist yfir. Skyttan Joan Cañellas sem marga fjöruna hefur sopið, eins og varnartröllið Viran Morros sem á dögunum lék sinn 200. landsleik. Raúl Entrerríos, stýrir leiknum af festu að vanda. Dujshebaev-bræðurnir leika nú saman í fyrsta sinn á stórmóti. Álex er á meðal hættulegustu örvhentu skytta heims. Bróður hans, Daniel, sem leikur í stöðu skyttunnar vinstra megin, vex stöðugt ásmegin enda hefur hlutverk hans styrkst innan landsliðsins jafnt sem hjá pólsku meisturunum Vive Kielce þar sem þeir leika undir stjórn föður síns, Talants Dujshebaev.

Ribera landsliðsþjálfari valdi 18 leikmenn til þess að fara með til Þýskalands. Af þeim voru 16 í Evrópumeistaraliðinu fyrir ári.

Spánverjar mæta Íslendingum í annarri umferð B-riðils í kvöld klukkan 18.00 að íslenskum tíma.

Greinin er úr HM-blaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu miðvikudaginn 9. janúar sl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert