„Nú byrjar veislan!“

Hörkustuð var í íslenska horninu í Ólympíuhöllinni í München á …
Hörkustuð var í íslenska horninu í Ólympíuhöllinni í München á föstudag. Búast má við enn meiri stemningu á morgun. Ljósmynd/Sérsveitin

Engan bilbug var að finna á Benja­mín Hallbjörnssyni, einnig þekkt­um sem Benna Bongó, liðsmanni í Sérsveitinni, nýju stuðningsliði íslensku handboltalandsliðanna, þegar mbl.is náði af honum tali skömmu eftir leik. Benni og Sérsveitin stóðu fyrir andlitsmálun og upphitun og sáu um að halda uppi stemningunni á leik Íslands og Spánar fyrr í kvöld.

„[Andinn í hópnum] er bara rosalega góður, þrátt fyrir tap. Ef „flautuleikararnir“ hefðu verið sanngjarnari hefðum við unnið þennan leik,“ sagði Benni og bætti við: „Að vera með handboltalið á HM þar sem meðalaldur í sókninni var á tímabili 20 ár er bara geggjað.“

Benni sagði að þrátt fyrir að Íslendingar hefðu tapað leiknum hefðu þeir átt stúkuna. „Við náðum upp svo geðveikri stemningu hér fyrir leik. Allir í höllinni, hvaðanæva úr heiminum, sungu og trölluðu með okkur.“

Spurður hvort tap í fyrstu tveimur leikjum Íslands á mótinu dragi ekkert úr baráttuandanum var svarið einfalt: „Nei. Við vissum að þetta yrðu tveir erfiðustu leikirnir og illu er best af lokið. Nú byrjar veislan!“

Blússandi stemning aftur á morgun

Næsti leikur Íslendinga er gegn Barein á morgun en um hann sagði Benni: „Þar ætlum við að mæta, aftur með blússandi stemningu, og hvetja strákana til þess að landa fyrsta sigrinum.“

Í kjölfarið stóðst blaðamaður ekki mátið og spurði: Það er Barein á morgun en er það barinn í kvöld? Við því svaraði Benni glaðbeittur: „Það eru alveg pottþétt einhverjir Íslendingar sem fara á barinn í kvöld. Við í Sérsveitinni ætlum hins vegar að fara að trítla upp á hótel og gíra okkur niður.“

Eins og á fyrri leikjum munu liðsmenn Sérsveitarinnar mála andlit íslenskra stuðningsmanna fyrir leikinn á morgun, sem hefst klukkan 14:30 að íslenskum tíma, og sjá um að halda uppi stuðinu og hvetja strákana okkar til dáða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert