Er stoltur af strákunum

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla.
Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla. AFP

„Það var bara virkilega gaman að þessu og ég er mjög stoltur af strákunum sem voru í kvöld að leika annan daginn í röð gegn einu af bestu liðum Evrópu,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að lið hans velgdi Evrópumeisturum Spánverja hressilega undir uggum á heimsmeistaramótinu í handknattleik en liðin eru með Íslendingum í riðli.

Óhætt er að segja að Spánverjar hafi sloppið með skrekkinn þegar þeir unnu með fjögurra marka mun, 26:22, eftir harða mótspyrnu japanska liðsins frá fyrstu mínútu. Japanska liðið var marki yfir, 11:10, að loknum fyrri hálfleik.

„Spánverjar buðu okkur upp í dansinn með því að byrja á hægum og kæruleysislegum leik. Það veitti okkur sjálfstraust. Síðan var það bara vel gert hjá strákunum að halda í við þá allt til leiksloka. Ég reiknaði með að spænska liðið myndi stinga okkur af í byrjun síðari hálfleiks en af því varð ekki og  munurinn varð aldrei mikill. Við vorum rétt á eftir þeim alveg fram á síðustu mínútu. Þetta var bara virkilega vel gert,“ sagði Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla.

Næsti leikur japanska liðsins verður við íslenska landsliðið á miðvikudaginn.  Dagur sagði frammistöðuna í kvöld veita leikmönnum sínum aukið sjálfstraust fyrir tvo síðustu leikina, við Ísland og Barein.

mbl.is