Japan stóð vel í Spáni – Risasigur Kristjáns

Gedeon Guardiola og Joan Canellas reyna að stöðva Hiroki Shida …
Gedeon Guardiola og Joan Canellas reyna að stöðva Hiroki Shida í kvöld. AFP

Spánn og Króatía eru bæði með fullt hús stiga í B-riðli, riðli Íslands, á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Spánn mætti Degi Sigurðssyni og lærisveinum í Japan í kvöld og máttu sannarlega hafa fyrir sigrinum, 26:22.

Dagur hafði greinilega lagt leikinn vel upp því Japanar skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins, lentu aldrei undir í fyrri hálfleik og voru marki yfir í leikhléi 11:10. Spánverjar skoruðu þó sex af fyrstu sjö mörkum síðari hálfleiks og komust yfir. Sá kafli lagði grunninn að sigri þeirra, en Japanar gáfust þó aldrei upp þrátt fyrir að tapa 26:22.

Ferrán Sole skoraði átta mörk úr átta skotum fyrir Spánverja en Shinnosuke Tokuda skoraði sjö fyrir Japan. Spánn og Króatía eru efst og jöfn með sex stig í riðlinum en Japan er án stiga. Ísland mætir Japan í næsta leik á miðvikudag.

Átján marka sigur Kristjáns

Kristján Andrésson og lærisveinar hjá Svíþjóð, silfurliði síðasta Evrópumóts, áttu ekki í neinum vandræðum með Angóla. Eftir að Svíar voru yfir í hálfleik 19:14 skoraði Angóla aðeins fimm mörk eftir hlé og Svíar unnu öruggan sigur 37:19.

Markaskorunin dreifðist vel hjá Svíum en mest skoruðu þeir Niclas Ekberg og Mattias Zachrisson fimm mörk. Svíar eru einir með fullt hús stiga í D-riðlinum en Ungverjar koma næstir með fimm stig. Þessar þjóðir mætast í lokaumferð riðilsins.

Frakkar þurftu svo að hafa fyrir því að komast á toppinn í A-riðli. Þrátt fyrir stórsigur á sameiginlegu liði Kóreu, 34:23, var leikurinn framan af gríðarlega jafn. Frakkar voru til að mynda aðeins marki yfir í hálfleik, 17:16.

Það var hins vegar meira eftir á tankinum hjá Frökkum eftir hlé, sem byggðu upp forskot jafnt og þétt sem skilaði sigri 34:23. Nedim Remili skoraði sjö mörk fyrir Frakka, sem eru með sex stig í A-riðli, fullt hús, en Þjóðverjar eru með fimm stig og Rússar fjögur eftir jafntefli þeirra fyrr í kvöld.

Kristján Andrésson, þjálfari Svía, á hliðarlínunni.
Kristján Andrésson, þjálfari Svía, á hliðarlínunni. AFP
mbl.is