Þetta hnoð er ekki handbolti

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, segist vera að hallast …
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, segist vera að hallast að þeirri skoðun að taka eigi upp skotklukku í handbolta eins t.d. er í körfuknattleik til að takmarka tíma til sóknar. AFP

„Ef reglan um töf er eins og hún var metin hjá dómurunum í leiknum í kvöld þá verður að taka upp skotklukku í handboltanum,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is eftir leikinn við Spánverja á HM í gærkvöldi.

„Ég var kominn á þá skoðun á tímabili að ekki væri þörf á skotklukku en eftir þennan leik þá velti ég fyrir mér hvort ekki eigi að taka upp skotklukku og takmarka þar með tímann til sóknar hverju sinni. Hvað eiga lið að fá langan tíma til sóknar og halda áfram að hnoðast og hnoðast áfram? Á stundum var sama upp á teningnum gegn Króötum þegar dæmd voru nokkrum sinnum aukaköst á ekki neitt. Þetta hnoð er ekki handbolti,“ sagði Guðmundur Þórður.

Guðmundur var afar óánægður með túlkun dómaranna á leiktöf í leiknum og sagði m.a. í samtali við mbl.is. „Það er margt skrítið í þessu öllu saman eins og til hversu oft dómarar leiksins lyfta upp höndum sínum til merkis um að nú stefni sókn í leiktöf en aldrei var dæmd  leiktöf á andstæðinginn. Hann hangir á boltanum hvað eftir annað og dómararnir eru orðnir þreyttir í handleggnum en aldrei dæma þeir töf. Þetta bara kjaftæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert