Brasilía tók stórt skref áfram og gæti beðið Íslands

Leonardo Tercariol, markvörður Brasilíu, og Felipe Borges fagna gegn Rússum …
Leonardo Tercariol, markvörður Brasilíu, og Felipe Borges fagna gegn Rússum í dag. AFP

Brasilía fór langt með að tryggja sér sæti í milliriðlum heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir sigur á Rússlandi, 25:23, í A-riðli keppninnar í Herning í dag.

Brasilía var með yfirhöndina í leiknum frá fyrstu mínútu og var með fimm marka forskot í hálfleik, 15:10. Rússarnir náðu að jafna eftir hlé í 19:19 en komust aldrei yfir og Brasilía vann að lokum tveggja marka sigur, 25:23. Felipe Borges skoraði sjö mörk fyrir Brasilíu en þeir Timur Dibirov og Dmitrii Zhitnikov sex fyrir Rússa.

Brasilía steig þar með stórt skref í átt að milliriðlum, en liðið situr í þriðja sæti A-riðils með fjögur stig. Rússar eru einnig með fjögur stig með einn leik eftir og verða að ná stigi eða stigum gegn Frökkum til þess að komast upp fyrir Brasilíu sem er með yfirhöndina vegna innbyrðis viðureigna. Brasilía verður sömuleiðis að tapa fyrir Kóreu í lokaleiknum.

Frakkar eru á toppi riðilsins með fullt hús og mæta Þjóðverjum síðar í dag. Þjóðverjar eru í öðru sæti og gerðu jafntefli við Rússa í gær. Brasilía, sem vann Serbíu í gær, mætir Kóreu í lokaleik sínum. Stig þar gulltryggir sætið áfram en Frakkar geta einnig komið Brasilíu áfram með sigri á Rússum.

Efstu þrjú liðin í A- og B-riðlum mótsins fara saman í milliriðla og komist Ísland áfram gæti liðið þar með mætt Brasilíu, Þýskalandi og Frakklandi. Ísland og Brasilía mættust í vináttuleik í Noregi í aðdraganda HM þar sem Ísland vann 33:29.

mbl.is