Búum okkur undir hraðan leik

Sigvaldi Björn Guðjónsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og …
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Ólafur Gústafsson sátu fyrir svörum á blaðamannfundi í dag. mbl.is/Ívar

„Japanir leika mjög hraðan handknattleik og ljóst er að við verðum að búa okkur afar vel undir leikinn við þá á morgun,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, á blaðamannafundi í dag spurður um næsta andstæðing íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu, landslið Japans sem er undir stjórn Dags Sigurðssonar.

„Japanir sýndu hvað þeir geta gegn Spánverjum í gærkvöld. Þeir hafa bætt sig gríðarlega síðustu mánuði á öllum sviðum leiksins,“ sagði Guðmundur Þórður sem var á leið á fund með leikmönnum sínum strax að loknum blaðamannafundinum skömmu eftir hádegið í dag. Síðdegis kemur íslenska landsliðið saman til æfingar í íþróttahöllinni í München þar sem línurnar verða lagðar fyrir viðureignina við Japan sem hefst klukkan 14.30 á morgun.

„Ég hef farið gaumgæfilega yfir leik Japans og Spánar og mun fara vel yfir hann með strákunum áður en við förum á æfinguna á eftir,“ sagði Guðmundur Þórður.

„Skipulagið hefur batnað mikið. Þeir hafa leikið vel það sem af er móts og eru líkamlega sterkari nú en nokkru sinni áður enda hefur liðið verið mikið saman við æfingar og keppni um langt skeið,“ sagði Guðmundur Þórður sem leggur ríka áherslu á að íslenska landsliðið byrji leikinn af krafti.

Spurður hvort honum hafi þótt kæruleysi vera yfir spænska liðinu við upphaf viðureignarinnar við Japan í gær sagðist Guðmundur ekkert vilja leggja mat á það. „Ég ætla ekki að taka neitt af japanska liðinu. Það lék bara virkilega vel auk þess sem annar markvörður liðsins átti stórleik sem undirstrikar enn og aftur hversu mikilvæg markvarslan er í handknattleik.“

Íslenska landsliðið þarf nauðsynlega á sigri að halda í leiknum við Japan til þess að halda í vonina um sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins.

Guðmundur Þórður lét þess enn fremur getið að staðan væri góð á leikmannahópi íslenska liðsins. Engin alvarleg meiðsli væru. Af þeim sökum stefnir í að sömu 16 leikmenn taki þátt í viðureigninni á morgun og hafa leikið fyrstu þrjá leikina á heimsmeistaramótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert