Byrjunin ræður miklu um framhaldið

Sigvaldi Björn Guðjónsson t.v., Guðmundur Þórður Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson …
Sigvaldi Björn Guðjónsson t.v., Guðmundur Þórður Guðmundsson, Arnar Freyr Arnarsson og Ólafur Gústafsson sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Ívar

„Leikurinn verður mjög erfiður því japönsku leikmennirnir eru fljótir og virðast líkamlega sterkir,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í dag spurður um japanska landsliðið sem íslenska landsliðið mætir á morgun á heimsmeistaramótinu í handknattleik.

„Þeir eru snöggir og sökum þess að við leikum mjög framliggjandi vörn þá verðum við að vera vakandi fyrir hjálparvörninni. Byrjunin á leiknum getur ráðið miklu um hvernig hann þróast,“ sagði Sigvaldi sem tók mikið þátt í viðureignunum við Spánverja og Bareina og hefur skorað fimm mörk í keppninni. Sigvaldi, eins og fleiri í íslenska landsliðinu, er að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti í handknattleik.

Sigvaldi Björn segir hlutverk sitt hafa verið stærra en hann hafi reiknað með. „Ég átti aldrei von á að fá hálftíma gegn Spánverjum. Það var óvænt og skemmtilegt að fá reynslu gegn þeim allra bestu. Ég reyni að læra eins mikið af þátttökunni og ég get auk þess að vinna með Guðmundi þjálfara og þessum frábæra hópi sem ég er hluti af. Þetta er mitt fyrsta stórmót. Segja má að draumur sé að rætast,“ sagði Sigvaldi sem söðlaði um í sumar sem leið og færði sig frá Árósum í Danmörku til Elverum í Noregi.

Elverum er besta handknattleikslið Noregs um þessar mundir og á m.a. sæti í Meistaradeildinni. Sigvaldi segir þetta skref hafa verið hárrétt fyrir sig, ekki síst með tilliti til að eiga meiri möguleika á sæti í landsliðinu.  „Ég er í stóru hlutverki hjá Elverum, bæði í sókn og vörn. Liðið er í Meistaradeild Evrópu sem þýðir að við erum að leika við nokkur af fremstu félagsliðum Evrópu. Þetta er frábær gluggi fyrir mig, bæði til þess að taka næsta skref með félagsliði og eins með það fyrir augum að öðlast sæti í landsliðinu sem ég hef stefnt að um nokkurt skeið,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson, landsliðsmaður í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert