Enn eitt rótburst Norðmanna

Sander Sagosen með boltann gegn Síle í kvöld. Norðmenn hafa ...
Sander Sagosen með boltann gegn Síle í kvöld. Norðmenn hafa farið á kostum það sem af er HM. AFP

Noregur er með öruggt sæti í milliriðlum heimsmeistaramótsins í handknattleik eftir að hafa rótburstað lið Síle í C-riðli í Herning í kvöld, 41:20. Noregur hefur unnið alla fjóra leiki sína á HM til þessa með tíu mörkum eða meira.

Jafnt var á með liðunum þar til í stöðunni 4:4, þegar Norðmenn gáfu í. Þeir skoruðu fimm mörk gegn einu og byggðu hægt og bítandi upp forskot sitt. Þegar flautað var til hálfleiks munaði níu mörkum á liðunum, staðan 21:12 fyrir Noreg.

Norðmenn gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik og voru fljótlega komnir með 16 marka forskot, 30:14. Þeir sigldu svo að lokum öruggum 21 marks sigri í höfn, 41:20, þar sem hinn 18 ára gamli Alexander Blonz fór fyrir liðinu með átta mörk. Estaban Salinas skoraði níu mörk fyrir Síle.

Norðmenn eru með fullt hús stiga í riðlinum, eins og Danir sem eiga þó eftir að mæta Austurríki í kvöld. Noregur hefur ekki gefið andstæðingum sínum neina miskunn á HM heldur unnu áður Túnis 34:24, Sádi-Arabíu 40:21, Austurríki 34:24 og nú Síle 41:20. Norðmenn mæta Dönum í lokaleiknum þar sem búast má við úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

Fyrsti sigur Serba

Serbar kræktu í sinn fyrsta sigur í A-riðli þegar liðið vann sameiginlegt lið Kóreu eftir spennuleik, 31:29. Kórea, sem hefur tapað öllum leikjum sínum til þessa, var þó tveimur mörkum yfir í hálfleik 16:14. Serbar jöfnuðu ekki fyrr en í stöðunni 22:22 en gengu þá á lagið og unnu með tveggja marka mun 31:29.

Vukasin Vorkapic skoraði sjö mörk úr sjö skotum fyrir Serba en Jeongu Kang var allt í öllu hjá Kóreu með 12 mörk. Serbía er nú með þrjú stig í riðlinum og mætir Þýskalandi í lokaleiknum á fimmtudag. Botnlið Kóreu mætir þá liði Brasilíu.

Serbinn Lazar Kukic með skot að marki Kóreu án þess ...
Serbinn Lazar Kukic með skot að marki Kóreu án þess að Jeong Jaewan komi vörnum við. AFP
mbl.is