Gríp í þá eftir bestu getu

Ólafur Gústafsson í slag við einn leikmanna spænska landsliðsins.
Ólafur Gústafsson í slag við einn leikmanna spænska landsliðsins. AFP

„Ég reyni að grípa í þá eftir bestu getu,“ sagði Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali vð mbl.is í dag spurður hvort ekki væri erfiðara fyrir hávaxna menn eins og hann að glíma við lágvaxna leikmenn eins og þá japönsku sem skera sig nokkuð úr í samanburði við leikmenn spænska og króatíska landsliðsins svo dæmi séu tekin.

Ólafur verður væntanlega í hjarta íslensku varnarinnar á morgun gegn Japan eins og í öðrum leikjum íslenska landsliðsins fram til þessa á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Þýskalandi.

Leikurinn hefst klukkan 14.30 á morgun.

„Það kann að vera að við verðum passívari í vörninni í leiknum við Japani en í fyrri leikjum mótsins. Annars höldum við okkar hlutverkum og gerum það eins vel og við getum,“ sagði Ólafur sem reiknar með Japanir verði svolítið óútreiknanlegri en fyrri andstæðingar íslenska liðsins á mótinu. „Þeir geta skyndilega verið með þrjá línumenn því hornamenn leysa mikið inn á línu úr hornunum. Eins eru þeir snöggir og fara oft í árásir sem ekki eru endilega hefðbundnar,“ sagði Ólafur sem reiknar með afar krefjandi leik á morgun.

Spurður hvernig honum þyki varnarleikur íslenska liðsins hafa verið á mótinu svaraði Ólafur að hann hafi verið misjafn.  „Við höfum dreift álaginu á milli okkar í hjarta varnarinnar, ég, Daníel Þór, Arnar Freyr og Ýmir Örn. Það hefur verið mikilvægt og veitt Guðmundi þjálfara yfirsýn á styrk okkar sem skiptir máli fyrir framhaldið í mótinu.  Eins hefur það sitt að segja fyrir okkur sjálfa að fá tækifæri til þess að komast inn í mótið.

Hins vegar er þessi varnarleikur þannig að ef menn eru ekki á fullri ferð allan tímann þá lekur vörnin. Hún krefst þess að menn haldi einbeitingu. Við verðum að vera með fasta línu frá fyrstu mínútu á morgun gegn Japan og taka hraustlega á þeim strax,“ sagði Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handknattleik karla, í samtali við mbl.is.

mbl.is