Þeir gefast aldrei upp

Arnar Freyr Arnarsson kominn í skotfæri í leiknum við Barein …
Arnar Freyr Arnarsson kominn í skotfæri í leiknum við Barein í gær. AFP

Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, segir leikmenn japanska landsliðsins vera snögga og líkamlega í góðu formi. „Þeir gefast heldur aldrei upp og eru í ofanálag óútreiknanlegir í leik sínum. Þess vegna verðum við að vera sem best búnir undir leikinn á morgun,“ sagði Arnar Freyr þegar mbl.is hitti hann að máli í dag.

„Maður þarf að mæta vel einbeittur til leiks. Við megum ekki klúðra þessum leik því hann er einn af úrslitaleikjunum sem við verðum að vinna til þess að fara í milliriðlakeppnina eins og stefna okkar er. Þar af leiðandi verðum við að leggja allt í sölurnar,“ sagði Arnar Freyr sem ekki sá beina útsendingu frá leik Spánar og Japans í gærkvöldi þar sem Japanir komu Spánverjum í opna skjöldu, mörgum á óvart. Spánverjum tókst vinna leikinn eftir talsverðan barning.

„Við verðum að vera klárir í slaginn frá fyrstu mínútu. Japönsku leikmennirnir mega aldrei fá það á tilfinninguna að þeir eigi möguleika á sigri. Stjórn leiksins verður að vera í okkar höndum frá fyrstu sekúndu,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, ákveðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert