Króatar burstuðu Barein – Drama í D-riðli

Króatinn Jakov Vrankovic kominn í gegn án þess að Jasim …
Króatinn Jakov Vrankovic kominn í gegn án þess að Jasim al-Salatna hjá Barein komi vörnum við. AFP

Króatar eru enn með fullt hús stiga í B-riðli, riðli Íslands, á heimsmeistaramótinu í handknattleik. Liðið vann öruggan 32:20 sigur á Barein, sem leikur undir stjórn Arons Kristjánssonar, þegar þjóðirnar áttust við í kvöld.

Króatar tóku völdin á vellinum strax frá fyrstu mínútu og voru með tíu marka forskot þegar flautað var til hálfleiks, staðan þá 19:9. Króatar gátu leyft sér að slaka meira á eftir hlé og héldu forskotinu í kringum tíu mörkin allt til enda og þegar yfir lauk var staðan 32:20.

Manuel Strlek fór á kostum hjá Króötum og skoraði 11 mörk, en Króatar eru með átta stig á toppi riðilsins. Spánverjar geta jafnað þá með sigri á Makedóníu í kvöld, en Spánn og Króatía mætast svo í lokaumferðinni á morgun. Ahmed Jajal var markahæstur hjá Barein með fimm mörk, en liðið er án stiga á botni riðilsins og mætir Japan í íslenskum þjálfaraslag á morgun.

Háspennujafntefli í Kaupmannahöfn

Í D-riðli mættust Ungverjaland og Egyptaland í Kaupmannahöfn og þar varð úr spennuleikur sem endaði að lokum með jafntefli, 30:30.

Ungverjar voru lengi vel yfir í fyrri hálfleik en sex mörk í röð frá Egyptum jöfnuðu leikinn á ný og staðan 14:14 í hálfleik. Egyptar náðu svo mest fjögurra marka forystu eftir hlé, en Ungverjar komu til baka og réðust úrslitin á lokamínútunum. Þar voru það Ungverjar sem skoruðu jöfnunarmark í blálokin, niðurstaðan 30:30.

Egyptar eru nú með þrjú stig í þriðja sæti riðilsins, en Katar getur komist upp fyrir þá með sigri á ósigruðum Svíum í kvöld. Ungverjar eru með sex stig og eru komnir áfram í milliriðla.

Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, hugsi á hliðarlínunni í dag.
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Barein, hugsi á hliðarlínunni í dag. AFP
mbl.is