Hreinlega ólýsanlegt

Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir á Kiril Lazarov, leikmann landsliðs Makedóníu, …
Gísli Þorgeir Kristjánsson sækir á Kiril Lazarov, leikmann landsliðs Makedóníu, í leiknum í Ólympíuhöllinni. Á þeim er 19 ára aldursmunur. AFP

„Þetta er hreinlega ólýsanlegt og draumi líkast,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München eftir sigur íslenska landsliðsins á landsliði Makedóníu, 24:22, en sigurinn tryggði íslenska landsliðinu sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins, farseðil til Köln.

Gísli Þorgeir, sem er aðeins 19 ára gamall, sprengdi upp vörn Makedóníu hvað eftir annað í leiknum og lék eins og sá sem valdið hefur þótt þetta væri aðeins hans átjándi landsleikur og sennilega sá mikilvægasti.

„Við eigum heima á meðal tólf bestu liða í heiminum. Það höfum við sýnt til þessa í keppninni, ekki síst í kvöld gegn þessu erfiða liði Makedóníu. Oft leit út eins og sóknarleikurinn væri að hiksta en mér fannst við vera að spila okkur í færi. Hins vegar þjappa þeir svo mikið inn á miðjuna að það er hrikalega erfitt að komast á milli þeirra. Það tókst betur þegar á leið leikinn og þá var allt opið,“ sagði Gísli og bætti við að í ljós hefði komið undir lokin að hann og félagar eru í mikið betra líkamlegu formi.

„Nokkrir leikmenn landsliðs Makedóníu eru ekki í nógu góðu standi. Við vissum að ef við héldum stöðugt áfram að keyra á þá kæmi að þeirri stund að þeir gæfu eftir. Sú varð raunin,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson sem strax hlakkar til að mæta Þýskalandi, Frakklandi og Brasilíu í milliriðlakeppninni. „Allt getur gerst ef við verðum áfram í okkar besta standi,“ sagði Gísli Þorgeir glaður í bragði í leikslok í kvöld í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert