Ísland í milliriðlakeppni HM

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tryggði sér sæti í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla með miklum vinnusigri á Makedóníu, 24:22, í Ólympíuhöllinni í München í kvöld eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í hálfleik, 13:11.

Ísland náði þar með þriðja sæti riðilsins og leikur næstu þrjá leiki sína í Köln.

Frábær varnarleikur og stórleikur Björgvins Páls Gústavssonar lögðu grunninn að sigrinum sem var torsóttur og kostaði mikla vinnu hjá öllum leikmönnum liðsins. Sóknarleikurinn var einng afar vel útfærður í síðari hálfleik en það þurfti mikla vinnu og þolinmæði til að snúa taflinu við í síðari hálfleik. 

Lið Makedóníu lék eins við var búist. Með sjö menn í sókn frá fyrstu sókn, tvo stóra menn á línunni auk þess sem sóknir þeirra voru oft og tíðum langar og þunglamalegar.  Varnarleikurinn var einnig hefðbundinn, 5/1, hið svokallaða júgóslavneska afbrigði sem á tíðum getur einnig verið 3/2/1 eða jafnvel 3/3. Seint verður sagt að sú útgáfa handknattleiks sem landslið Makedóníu leikur sé skemmtileg, en hún getur verið árangursrík þegar allt gengur upp hjá liðinu.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði fyrsta mark leiksins í sínum 100. landsleik yfir endilangan völlinn. Byrjunin var ekki sem verst en framhaldið ekki eins. Makedóníumenn svöruðu með fjórum mörkum áður en Arnór skoraði annað mark, svipað og það fyrsta, eftir hálfa níundu mínútu, 4:2. Með þolinmæði jafnaði íslenska liðið metin í 4:4, áður en Makedóníumenn komust tveimur mörkum yfir á ný, 6:4, eftir 14 mínútna leik.

Björgvin Páll Gústavsson fann sig vel í markinu. Hann varði vel en því miður þá gekk á tíðum illa að ná fráköstunum. Þau lentu of oft í höndum línu- eða hornamanna makedónska liðsins. Varnarleikur íslenska liðsins gekk einnig vel.

Sænskir dómarar leiksins voru nokkrum sinnum afar fljótir á sér að dæma og tóku í tvígang að minnsta kosti upplögð færi af íslensku leikmönnunum til þess að dæma á eitthvað smávægilegt. Þeir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik.

Eftir þrjár sóknir án marks skoraði Ólafur Gústafsson sitt fyrsta mark á mótinu og þriðja mark Íslands í leiknum yfir endilangan leikvöllinn. Arnór Þór jafnaði metin í 6:6, eftir 18 mínútur þegar íslenska liðið var manni fleira. Ólafi var síðan vísað af leikvelli fyrir brot skömmu síðar og Arnór Þór fylgdi í kjölfarið. Íslenska liðinu tókst vel að halda  sjó, fyrst manni færra og síðan tveimur um skeið.

Kiril Lazarov kom Makedóníu tveimur mörkum yfir, 11:9, fjórum mínútum fyrir leikslok en Arnór Þór minnkaði muninn fljótlega með góðu marki úr hægra horni og bætti upp fyrir vítakast sem Borko Ristovski varði frá honum í sókninni á undan.

Varnarleikurinn var góður hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik og markvarslan. Sóknarleikurinn var undir væntingum og nýting skota var slæm. Af 11 mörkum voru þrjú skoruð í tómt mark Makedóníu. Hraðaupphlaup voru einnig fá. Makedóníumenn voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.

Arnór Þór skoraði fimm mörk og var markahæstur Íslendinga í fyrri hálfleik.

Hálfleiksræðan hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara hlýtur að hafa gengið út á sóknarleikinn. Hann var að gefa leikmönnum sínum ráð varðandi hann fram á síðustu sekúndu hálfleiksins og gekk um með spjaldið sitt góða.

Ísland byrjaði í sókn í síðari hálfleik og Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki lengi að minnka muninn í 13:12.

Björgvin Páll hélt áfram að fara á kostum í markinu í síðari hálfleik en illa gekk að nýta sér stórleik hans.

Eftir talsverðan barning tókst Arnóri Þór að jafna metin, 16:16, eftir níu mínútna leik þegar hann náði frákasti eftir að Bjarki Már Elísson hafi kastaði boltanum í slá í enn eitt skiptið sem mark Makedóníu stóð autt.

Arnar Freyr Arnarsson kom íslenska liðinu loksins yfir, 17:16, á 44. mínútu og Elvar Örn Jónsson bætti átjánda markinu við skömmu síðar. Loksins var íslenska liðið komið með tveggja marka forskot. Raúl Gonzales, þjálfari liðs Makedóníu, tók í kjölfarið síðasta leikhlé sitt í leiknum þótt enn væri stundarfjórðungur til leiksloka.

Ísland var með tveggja marka forskot um skeið, 19:17 og 20:18, áður en Makedóníumenn jöfnuðu metin, 20:20, átta mínútum fyrir leikslok. Spennan var sannarlega rafmögnuð og sjö mínútum fyrir leikslok tók Guðmundur Þórður annað af tveimur leikhléum sem hann átti eftir.

Filip Kuzmanovski jafnaði metin, 21:21, tæpum fimm mínútum fyrir leikslok og Bjarki Már Elísson kom Íslandi yfir í kjölfarið. Arnór Þór kom Íslandi tveimur mörkum yfir rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok, 23:21, þegar hann náði frákasti eftir Rotsovksi hafði varið sitt þriðja vítakast í leiknum, þar af annað frá Arnóri.

Í kjölfarið misstu Makedóníumenn boltann fyrir mótmæli og mikið uppistand á meðal varamanna og þjálfara leiksins. Sóknina í framhaldinu tókst íslenska liðinu ekki að nýta og Makedóníumenn minnkuðu muninn í eitt mark, 23:22.

Arnór Þór skoraði 24. markið þegar mínúta var eftir að leiknum úr vítakasti og Björgvin Páll slökkti síðustu von Makedóníumanna og kórónaði stórleik sinn þegar hann varði skot þeirra 15 sekúndum fyrir leikslok. Leikmenn íslenska liðsins og meira að segja þjálfarinn fögnuðu dátt. Þeir stóðust prófið, tveggja marka sigur, 24:22, og sæti í milliriðli gulltryggt.

N-Makedónía 22:24 Ísland opna loka
60. mín. Leik lokið Leiknum er lokið með sigri Íslands 24:22. Ætlunarverkið tókst og Ísland fer í milliriðil í Köln. Íslenska liðið fékk aðeins á sig níu mörk í síðari hálfleik.
mbl.is

Bloggað um fréttina