Króatar unnu Íslandsriðilinn – Frakkar sluppu

Króatinn Igor Karacic fer fram hjá Spánverjunum Alex Dujshebaev og …
Króatinn Igor Karacic fer fram hjá Spánverjunum Alex Dujshebaev og Angel Fernandez Perez í kvöld. AFP

Riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik lauk í kvöld þegar síðustu leikirnir í riðlunum fóru fram. Þar ber hæst að heimsmeistarar Frakka sluppu heldur betur með skrekkinn og Króatar unnu riðil Íslands.

Frakkar hafa ekki tapað leik á heimsmeistaramóti í sex ár, en þeir komust heldur betur nálægt því gegn Rússum í kvöld. Staðan var 12:12 í hálfleik, en Rússar náðu fjögurra marka forystu 21:17 þegar langt var liðið á seinni hálfleikinn. Frakkar skoruðu hins vegar sex mörk gegn einu á lokakaflanum og unnu að lokum 23:22.

Frakkar unnu A-riðilinn með níu stig og taka þrjú stig með sér í milliriðil eins og Þjóðverjar sem höfnuðu í öðru sæti með átta stig. Brasilía fór einnig áfram en tekur ekki stig með sér.

Svíar með fullt hús stiga

Í B-riðli, riðli Íslands, unnu Króatar lið Spánverja í baráttunni um efsta sætið, 23:19. Króatar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10, en náðu aldrei að hrista Spánverja af sér. Króatar misstu þó aldrei forskotið og tryggðu sér þennan fjögurra marka sigur 23:19.

Króatar kláruðu því B-riðilinn með fullt hús stiga og fara með fjögur stig í milliriðilinn en Spánverjar fara með tvö stig. Ísland er svo þriðja liðið sem fer upp úr riðlinum, en tekur engin stig með sér eftir tap fyrir bæði Króötum og Spánverjum.

Kristján Andrésson og lærisveinar í Svíþjóð unnu svo D-riðilinn með fullt hús eftir sigur á Ungverjalandi 33:30, eftir að hafa verið marki yfir í hálfleik 16:15. Svíar taka fjögur stig með sér í milliriðil, Ungverjar taka eitt stig og Egyptar eitt.

Frakkinn Luc Abalo á skot að marki Rússa í kvöld.
Frakkinn Luc Abalo á skot að marki Rússa í kvöld. AFP
mbl.is