Leiktímar Íslands í milliriðli HM

Arnór Þór Gunnarsson hefur verið frábær með Íslandi á HM.
Arnór Þór Gunnarsson hefur verið frábær með Íslandi á HM. AFP

Nú þegar riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik er lokið er orðið ljóst hvenær Ísland spilar leiki sína í milliriðli mótsins. Milliriðlarnir hefjast á laugardag.

Efstu þrjú liðin úr A- og B-riðlunum sameinast þá í Köln. Hvert og eitt lið tekur þangað með sér þau stig sem það vann sér inn gegn hinum tveimur liðunum sem fóru áfram úr þeirra riðli. Ísland fer því ekki með neitt stig áfram úr B-riðlinum á meðan Króatar fara áfram með fjögur stig og Spánverjar tvö. Úr A-riðli koma bæði Frakkar og Þjóðverjar með þrjú stig eftir jafntefli sín á milli, en Brasilía tekur ekkert stig með sér.

Fyrsti leikur Íslands í milliriðlinum er gegn Þjóðverjum á laugardag klukkan 19.30. Ísland mætir svo heimsmeisturum Frakka á sunnudagskvöld klukkan 19.30 en síðasti leikurinn er svo gegn Brasilíu á miðvikudag klukkan 14.30. Riðillinn er í heild sinni spilaður í Köln.

Leikir Íslands í milliriðlinum:

Laugardagur 19. janúar: Ísland – Þýskaland klukkan 19.30
Sunnudagur 20. janúar: Ísland – Frakkland klukkan 19.30
Miðvikudagur 23. janúar: Ísland – Brasilía klukkan 14.30

mbl.is