Patrekur spilar um 17.-20. sætið

Patrekur Jóhannesson ræðir við Lukas Herburger í leiknum gegn Túnis …
Patrekur Jóhannesson ræðir við Lukas Herburger í leiknum gegn Túnis í dag. AFP

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans hjá Austurríki höfnuðu í fimmta sæti C-riðils á heimsmeistaramótinu í handknattleik, en þetta var ljóst eftir 32:27 tap fyrir Túnis í lokaumferð riðilsins í dag.

Austurríki átti enn þá möguleika á sæti í milliriðli fyrir leikinn, en þurfti þá að vinna Túnis með ellefu marka mun eða meira. Eftir jafnar upphafsmínútur var það hins vegar Túnis sem náði yfirhöndinni og var fjórum mörkum yfir í hálfleik 18:14.

Lærisveinar Patreks gáfust hins vegar ekki upp og náðu að jafna í 25:25 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir. Aldrei náði Austurríki hins vegar forystunni, Túnis vann 32:27 og tryggði sér um leið þriðja sætið í riðlinum. Túnis fylgir því Danmörku og Noregi í milliriðla, en Norðurlandaþjóðirnar mætast í kvöld í úrslitaleik um efsta sæti riðilsins.

Úrslitin þýða það að Austurríki mun spila um 17.-20. sæti mótsins í Forsetabikarnum og mætir þar fyrst annaðhvort Katar eða Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert