Patrekur þarf risasigur

Patrekur Jóhannesson þarf að hvetja sína menn vel í kvöld.
Patrekur Jóhannesson þarf að hvetja sína menn vel í kvöld. AFP

Patrekur Jóhannesson á enn þá möguleika á því að tryggja Austurríki sæti í milliriðlum heimsmeistaramótsins í handknattleik. Einum leik er lokið í lokaumferð C-riðils þar sem Síle vann Sádi-Arabíu.

Sádarnir ljúka keppni í riðlinum án stiga og það var alveg ljóst í dag að það myndi ekki breytast í lokaleiknum í riðlinum. Síle var yfir í hálfleik 21:13 og gat leyft sér að slaka aðeins á eftir hlé. Lokatölur 32:27.

Síle og Túnis eru nú bæði með fjögur stig í riðlinum en Austurríki hefur tvö og mætir Túnis í kvöld. Ef Austurríki vinnur með ellefu mörkum eða meira þá ná lærisveinar Patreks þriðja sæti riðilsins og fara áfram í milliriðla. Stig dugar Túnis áfram, og liðið má reyndar tapa leiknum gegn Austurríki með fjögurra marka mun en fara áfram samt.

Noregur og Danmörk mætast síðar í kvöld og berjast um toppsæti riðilsins og að fara með fullt hús í milliriðla.

Esteban Salinas í liði Síle heldur boltanum í kröppum dansi …
Esteban Salinas í liði Síle heldur boltanum í kröppum dansi gegn Sádum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert