Stund sannleikans er að renna upp

Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins. AFP

Klukkan 17 í dag rennur upp stund sannleikans hjá íslenska landsliðinu í handknattleik karla á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi.

Þá fer liðið í hreinan úrslitaleik við Makedóníu um sæti í milliriðlakeppni mótsins, keppni tólf bestu liðanna sem taka þátt í mótinu. Að baki eru fjórir leikir. Tveir hafa tapast, fyrir Króatíu og Spáni. Tveir hafa unnist, á móti Barein og Japan í gær, 25:21. Staðan sem rædd hefur verið um skeið er komin upp: Hreinn úrslitaleikur við Makedóníu.

Leikurinn verður ein fyrsta prófraun þessa unga landsliðs sem enn er í mótun og menn sjá fyrir sér að innan nokkurra ára geti komist í allra fremstu röð. Meðalaldur leikmanna er í kringum 24 ár og meðalfjöldi landsleikja á mann var um 50 þegar heimsmeistaramótið hófst. Ungt lið í mótun. Stenst íslenska liðið prófið gegn stórum og sterkum leikmönnum Makedóníu? Er liðið komið svo langt? Standist liðið prófið má segja að það hafi stígið stórt skref með þátttöku sinni á HM.

Ekki var annað að heyra á leikmönnum íslenska liðsins í gær en að allir geri sér í alvöru grein fyrir verkefninu sem fram undan er.

Leikurinn á móti Japan í gær var ekki góður þegar litið er til sóknarleiksins. Aðeins fyrstu tíu mínúturnar eða svo var hann viðunandi. Eftir það var sóknarleikurinn tómt basl gegn sprækum leikmönnum Japans. Ljóst er þó að allt annað verður að vera upp á teningnum í dag gegn Makedóníu. Þolinmæðin verður að vera fyrir hendi auk aga og skipulags. Kæruleysis eða einbeitingarleysis má ekki verða vart.

Ekki má þó draga of miklar ályktanir af leik Íslands i gær. Andstæðingurinn í dag er gjörólíkur nánast að öllu leyti. Hvað sem segja má um Makedóníumenn þá leika þeir handknattleik sem Íslendingar þekkja betur og eru vanari að mæta. Þeir eru ólseigir, engin lömb að leika við.

Heljarmenni á línunni

Varnarleikurinn var góður gegn Japan. Í dag verður hins vegar um allt annan andstæðing að raða. Makedóníumenn eru nokkuð reyndir. Þeir eru stórir, sterkir og þungir. Þeir leika undantekningarlaust með sjö menn í sókn, þar af tvo á línunni, Stojanche Stoilov og Zharko Peshevski. Hvorugur er sérlega meðfærilegur. Þeir binda varnarmenn andstæðinganna niður. En enn eru galdrar til í skónum hjá Kiril Lazarov. Hann fóðrar þá félaga á línunni á sendingum, ef ekki þá kastar hann sjálfur á markið og er ákaflega skotviss, er ekkert farið að förlast þótt árin séu brátt orðin 39. Segja má að með Lazarov og línumennina tvo í aðalhlutverki hafi Makedóníumenn náð einstökum tökum á að leika með sjö manna sókn, leikaðferð sem margir vilja leggja niður.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »