Þetta var fallegt

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik gegn Makedóníu í kvöld á …
Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik gegn Makedóníu í kvöld á HM. AFP

„Á heildina litið var þetta fallegt. Þjálfarateymið og leikmenn lögðu mikla vinnu í undirbúning á þeim stutta tíma sem við höfðum og uppskeran var eins og til var sáð,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Makedóníu á heimsmeistaramótinu í kvöld, 24:22.

„Við lögðum gífurlega vinnu í varnarleikinn frá upphafi til enda. Íslenska hugarfarið skein í gegn og þess vegna er ég ógeðslega ánægður með að hafa lokið leiknum með mikilli gleði sem var full af tilfinningum,“ sagði Björgvin Páll sem fór hamförum að baki vörninni í leiknum og var með nærri 40% hlutfallsmarkvörslu.

„Við héldum einbeitingu til leiksloka sem er alls ekkert sjálfgefið í svona jöfnum leik gegn jafn erfiðum andstæðingi og lið Makedóníu er. Arnór Þór sýndi mikinn karakter þegar hann skoraði úr vítakasti á síðustu stundu. Menn voru aldrei hræddir þótt á móti blési um skeið vegna þess að við vorum vel undir leikinn búnir. Við erum reynslunni ríkari frá HM fyrir tveimur árum þegar við misstum leik niður í jafntefli í blálokin gegn Makedóníu,“ sagði Björgvin Páll sem hrósar sérstaklega yngri og óreyndari leikmönnum liðsins fyrir frammistöðu sína.

„Gísli Þorgeir Kristjánsson á til dæmis mikið hrós skilið fyrir að koma okkur inn í leikinn með áræðni sinni í sókninni.“

Björgvin Páll hefur staðið afar vel fyrir sínu á mótinu en fyrir HM þótti vera ástæða til að hafa áhyggjur af markvörslunni.  Björgvin Páll segist ekki nú frekar en áður láta umræðuna slá sig út af laginu enda sé hún ekki ný af nálinni.

„Svo hefst stórmót og þá hverfur umræðan um að markvarslan sé ekki nógu góð. Ég held að það sé best að láta af þessari umræðu. Við Ágúst Elí Björgvinsson myndum mjög gott teymi með Tomas Svensson markvarðaþjálfara. Tomas hefur hjálpað okkur mikið og stutt afar vel við bakið á okkur. Ég á honum mjög mikið að þakka,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins, eftir stórleikinn í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

mbl.is