Þreyttur en líður rosalega vel

Arnar Freyr Arnarsson t.v. og Elvar Örn Jónsson verjast Kiril …
Arnar Freyr Arnarsson t.v. og Elvar Örn Jónsson verjast Kiril Lazarov. AFP

„Mér líður rosalega vel, þetta alveg stórkostlegt,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson sem gekk nánast berserksgang í vörn íslenska landsliðsins í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði landslið Makedóníu, 24:22, og tryggði sér farseðilinn í milliriðlakeppni
heimsmeistaramótsins.

„Það er æðilegt að ná markmiðinu,“ sagði Arnar Freyr sem var að vonum þreyttur enda stóð hann í eldlínunni í baráttu við stóra og þunga línumenn landsliðs Makedóníu milli þess sem hann barðist við skyttuna sígildu, Kiril Lazarov. 

„Leikurinn tók hrikalegan kraft frá manni enda ofsalega erfitt að leika manni færri í vörninni allan leikinn.  Lazarov er hrikalega góður enn þá og síðan eru línumennirnir stórir og það er erfitt að vera í stöðugri baráttu við þá,“ sagði Arnar Freyr.

„Síðari hálfleikur var mjög góður hjá okkur. En við vissum að formið á okkur væri betra og ef næðum að halda áfram að hreyfa þá myndu þeir gefa eftir. Sú varð raunin,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson í samtali við mbl.is í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert