Björgvin mesti vítabaninn á HM

Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. AFP

Björgvin Páll Gústavsson er mesti vítabaninn á heimsmeistaramótinu í handknattleik til þessa eftir að riðlakeppninni lauk í gærkvöld.

Björgvin Páll hefur varið flest víti allra markvarða á mótinu en hann hefur varið 7 af þeim 17 vítaköstum sem Íslendingar hafa fengið á sig eða 42%. Hann átti frábæran leik á milli stanganna í gær þegar Íslendingar lögðu Makedóníumenn að velli og tryggðu sér þar með sæti í milliriðli.

Mohamed A.Husain markvörður Barein hefur varið 6 vítaköst og Daninn Niklas Landin og Argentínumaðurinn Carlos Maciel hafa varið 5.

Björgvin Páll var með 35% markvörslu í riðlakeppninni en hann varði 51 af þeim 146 skotum sem hann fékk á sig. Niklas Landin er með hæstu prósentuna eða 51% markvörslu en hann varði 51 skot af þeim 124 sem hann fékk á sig í riðlakeppninni.

mbl.is