Forsetinn hvetur landsliðið til dáða

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður á meðal áhorfenda á ...
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, verður á meðal áhorfenda á leikjum íslenska landsliðsins í handknattleik á heimsmeistaramótinu í Köln annað kvöld og á sunnudagskvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, er væntanlegur til Kölnar í Þýskalandi þar sem hann ætlar að hvetja íslenska landsliðið í handknattleik til dáða. Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, staðfesti komu forsetans við mbl.is í kvöld.

Guðni verður á meðal áhorfenda á viðureign Íslands og Þýskalands annað kvöld í Lanxess-Arena í Köln og einnig kvöldið eftir á sama stað þegar íslenska landsliðið mætir heimsmeisturum Frakka.  Reiknað er með að innan við 100 Íslendingar verði á meðal áhorfenda annað kvöld en uppselt er á viðureign Íslands og Þýskalands, 19.750 aðgöngumiðar eru seldir.

Forsetinn heldur heimleiðis á mánudaginn. 

Guðni er mikill áhugamaður um handknattleik og lék íþróttina á sínum yngri árum m.a. á Bretlandseyjum á námsárum sínum. Bróðir hans Patrekur er landsliðsþjálfari Austurríkis sem einnig er með á heimsmeistaramótinu. Patrekur og lærisveinar mæta landsliði Argentínu annað kvöld í Kaupmannahöfn á sama tíma og Guðni verður að fylgjast með íslenska landsliðinu í Lanxess-Arena í Köln.

mbl.is