Sprengdi einkunnaskalann

Mikkel Hansen fagnar einu af 14 mörkum sínum í gærkvöld.
Mikkel Hansen fagnar einu af 14 mörkum sínum í gærkvöld. AFP

Bent Nyega­ard, hand­bolta­sér­fræðing­ur TV 2 og þjálf­ari Fram og ÍR á árum áður, gefur leikmönnum danska landsliðsins í handknattleik einkunnir eftir leiki liðsins og engin undantekning var á því eftir sigur Dana gegn Norðmönnum í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í gær.

Með sigrinum tryggðu Danir sér efsta sætið í riðlinum og fara í milliriðil 2 með fullt hús stiga, eða fjögur stig.

„Þetta er það besta sem ég hef séð danskt landslið leika í 45 mínútur,“ skrifar Nyegard en Danir fóru á kostum fram í miðjan seinni hálfleik. Þeir náðu mest átta marka forskoti en Norðmenn náðu að laga stöðuna og leiknum lauk með sigri Dana 30:26.

Stórskyttan Mikkel Hansen átti stjörnuleik og skoraði 14 mörk og það fór svo að hann sprengdi skalann í einkunnagjöf Nyegard. Hæsta einkunnin sem Nyegard gefur er 6 en Hansen fékk 7 í einkunn.

„Skalinn er gerður fyrir venjulegt fólk en Mikkel Hansen var einstakur og frá annari plánetu,“ skrifar Nyegard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert