Svíar eru áhyggjufullir

Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins.
Kristján Andrésson, þjálfari sænska landsliðsins. AFP

Sigur Kristjáns Andréssonar og lærisveina hans í sænska landsliðinu gegn Ungverjum í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í gærkvöld reyndist dýrkeyptur.

Jim Gottfridsson, lykilmaður í liði Svíanna, meiddist í leiknum og er óvíst hvort hann geti spilað meira með Svíunum á HM. Gottfridsson, sem leikur með þýska liðinu Flensburg, meiddist á kálfa og haltraði sárþjáður af leikvelli.

Meiðsli Gottfridsson verða könnuð nánar í dag en það yrði mikil blóðtaka fyrir Svíana ef hann spilar ekki meira.

Svíar unnu alla fimm leiki sína í riðlinum og fara í milliriðilinn með fullt hús stiga eða fjögur stig eins og Danir. Norðmenn eru með tvö stig, Ungverjar og Egyptar eitt en Túnisar eru án stiga.

mbl.is