Var nálægt því að slá markamet þjálfarans

Mikkel Hansen og Niklas Landin voru frábærir í liði Dana …
Mikkel Hansen og Niklas Landin voru frábærir í liði Dana í gærkvöld. AFP

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana í handbolta, segist ekki hafa áttað sig á því hversu nálægt Mikkel Hansen var að slá markametið í leik með danska landsliðinu í leiknum gegn Norðmönnum í lokaumferð riðlakeppni HM í gærkvöld.

Hansen skoraði 14 mörk í leiknum en markametið á sjálfur þjálfarinn, Nikolaj Jacobsen, sem skoraði 15 mörk í leik gegn Grikkjum árið 1998.

„Ég vissi ekki hvað hann hafði skorað mörg mörk og ef ég hefði vitað það þá hefði ég tekið hann fyrr út af,“ sagði Jacobsen með bros á vör í viðtali við TV2 eftir leikinn. „Mikkel var stórkostlegur í leiknum og frammistaða liðsins var til mikillar fyrirmyndar.“

Mikkel Hansen er markahæstur á HM. Hann hefur skorað 35 mörk, fjórum mörkum meira en Arnór Þór Gunnarsson og Þjóðverjinn Uwe Gensheimer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert