Verður mjög stór áskorun

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. AFP

„Þjóðverjar eru í fyrsta lagi með frábært lið auk þess sem þeir verða með 20 þúsund stuðningsmenn á bak við sig. Þetta verður þar af leiðandi ansi stór áskorun fyrir okkar unga lið að mæta þeim að þessu sinni og við þessar aðstæður,“ sagði Guðmundur Þórður  Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, skömmu fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Lanxess-Arena í Köln í kvöld.

Mikið álag verður á íslenska landsliðinu um helgina því annað kvöld klukkan  19.30 mætir liðið Þjóðverjum í í Lanxess-Arena og sólarhring síðar stendur íslenska liðið frammi fyrir heimsmeisturum  Frakka.

Guðmundur segir  þetta tækifæri landsliðsins verða ævintýri líkast. Hann kvíðir ekki leikjunum og vonar að lærisveinar sínir verði fljótir að átta sig á aðstæðum og geti einbeitt sér að leiknum, ekki síst þeim sem fram fer annað kvöld því búast má við að Þjóðverjar pakkfylli íþróttahöllina sem rúmar 19.750 áhorfendur.

„Ég vona bara að menn nái fljótlega áttum og takist að útiloka umhverfið frá sér og einbeiti sér að því sem skiptir öllu máli sem verður leikurinn og það sem við ætlum að gera. Mikilvægt er að komast inn í leikinn eins fljótt og hægt er.“

Víða  hefur verið gagnrýnt hversu stuttur tími gefst til undirbúnings fyrir hvern leik. Íslenska liðið lék síðdegis í fyrradag erfiðan leik. Gærdagurinn fór að verulegum hluta í pakka saman í München, ferðast til Kölnar og koma sér þar fyrir á hóteli.  Síðan daga við tveimur erfiðir leikir, í dag og á morgun. Guðmundur Þórður hefur gagnrýnt fyrirkomulagið, eins Aron Pálmarsson. Fleiri hafa tekið í sama streng og m.a. veit Morgunblaðið að megn óánægja ríkir innan herbúða franska landsliðsins. Vafalaust eru fleiri á sömu skoðun.

Guðmundur sagði við mbl.is í dag að þessi skammi tíma auk ferðalaga hefði í för með sér mikið álag á alla í hópnum. „Álagið er gríðarlegt. Leikmenn verða að hvílast í kvöld og safna kröftum. Æfingin sem við erum að fara á verður aldrei löng né erfið. Við fáum aðeins 50 mínútur. Morgundagurinn fer síðan meira og minna í hvíld og undirbúning inni á hóteli.

„Hvað sem öllu líður þá er um stórkostlegt tækifæri að ræða fyrir íslenska liðið að leika hér við landslið heimamanna í þeirri umgjörð sem hér er. Þetta er algjört ævintýri,“ sagði Guðmundur.

Spurður hvort hann teldi landsliðið geta komið því þýska í opna skjöldu sagði Guðmundur að það væri aldrei að vita.  „Við ætlum að leika okkar leik eins og við getum besta. Við getum alveg staðið í hvað liði sem er, það er okkar trú," sagði Guðmundur.

Allir leikmenn íslenska liðsins eru klárir í slaginn að sögn Guðmundar. Aron er orðinn betri af flensunni sem herjaði á hann fyrr í vikunni. „Menn eru kannski með smápústra en ekkert alvarlegt,“ sgaði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla í samtali við mbl.is í Lanxess-Arena í Köln fyrir stundu.

mbl.is