„Held að Björgvin taki lokaskotið“

Félagarnir hafa áður farið á stórmót. Guðni er lengst til ...
Félagarnir hafa áður farið á stórmót. Guðni er lengst til hægri, skælbrosandi. Ljósmynd/Aðsend

„Við keyptum miða á þennan leik í nóvember. Í hálfleik á síðasta leik leit jafnvel út fyrir að við værum á leið á Makedóníu - Þýskaland,“ segir séra Guðni Már Harðarson í samtali við mbl.is og hlær. Hann og séra Ólafur Jóhann Borgþórsson verða á meðal 100 íslendinga á leik Íslands og Þýskalands á HM í handbolta í kvöld.

Ísland tryggði sér sæti í milliriðli, sem hefst í kvöld, með því að sigra Makedóníu í síðasta leik riðlakeppninnar á fimmtudag. Eins og Guðni bendir á var útlitið ekkert sérstaklega gott framan af þeim leik en Makedónía hafði tveggja marka forystu að loknum fyrri hálfleik, 13:11.

Strákarnir þurfa að eiga góðan leik til að standa í ...
Strákarnir þurfa að eiga góðan leik til að standa í Þjóðverjum í kvöld. Ljósmynd/HSÍ

Íslensku strákarnir sneru leiknum sér í hag í seinni hálfleik og unnu, 24:22. „Þeir stóðust traustið,“ segir Guðni og hlær. Félagarnir flugu til Þýskalands í morgun og var tiltölulega nýbúnir að bóka sig inn á hótel þegar blaðamaður hafði samband við þá.

„Við sáum einhverja Íslendinga á leiðinni,“ segir Guðni en einn þeirra er nafni hans; Guðni Th. Jóhannesson forseti. „Hann var með okkur í lest, á öðru farrými með syni sína, alþýðulegur að vanda,“ segir séra Guðni um forsetann.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ferðaðist með almúganum á leið ...
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ferðaðist með almúganum á leið til Þýskalands. mbl.is/Eggert

Leikurinn hefst klukkan 19:30 að íslenskum tíma í Lanxess-Arena höllinni í Köln. Hún tekur 20 þúsund manns í sæti en ljóst er að lítið mun heyrast í Íslendingum. „Þetta verða bara við, forsetinn og fjölskyldur leikmanna, held ég,“ segir Guðni. „Það er svolítið leiðinlegt að það verði 19.900 Þjóðverjar og 100 Íslendingar,“ bætir hann við en er þó að sjálfsögðu spenntur fyrir kvöldinu:

„Ég fer ekki með of miklar væntingar í leikinn og lít fyrst og fremst á þetta sem stórt innlegg í reynslubankann hjá strákunum. Ég held að þeir fari óhræddir og hafi trú á sjálfum sér,“ segir Guðni. Þeir félagar verða að sjálfsögðu klæddir í blátt og ættu sjónvarpsáhorfendur því að geta séð þá í þýska mannhafinu í kvöld.

Þýskaland hefur gert jafntefli í tveimur leikjum af fimm hingað til og Guðni býst við því að heimamenn geri þriðja jafntefli sitt í kvöld. „Ég ætla að spá því að við fáum stig í þessum leik. Þetta verður æsispennandi en ég held að Björgvin taki lokaskotið.

mbl.is