Munurinn lá í sóknarleiknum

Arnar Freyr Arnarsson t.v.
Arnar Freyr Arnarsson t.v. AFP

„Við náðum okkur ekki á strik í sóknarleiknum og þar lá munurinn kannski þegar upp var staðið,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is, eftir fimm marka  tap fyrir þýska landsliðinu í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í kvöld.

„Varnarleikurinn var góður hjá okkur þótt koma hefði í mátt í veg fyrir nokkur þýsk mörk. Sóknarleikurinn reyndist okkur erfiður þegar upp var staðið. Þar lá munurinn á liðunum. Þjóðverjar eru líkamlega sterkari en við og við vorum allt of mikið að hnoðast í þeim,“ sagði Arnar Freyr og bætti við að skarð hefði verið fyrir skildi að Aron Pálmarsson meiddist um miðjan fyrri hálfleikinn og kom ekkert meira við sögu í leiknum.

„Það er erfitt annars að meta fullkomlega svona rétt eftir leik hvað betur hefði mátt farið. En víst er að úrslitin eru gríðarlega svekkjandi. Mér fannst við eiga möguleika á að vinna þá en því miður gekk það ekki eftir,“ sagði Arnar Freyr Arnarsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert