Þjóðverjar styrka lið sitt fyrir átökin

Christian Prokop, landsliðsþjálfari Þjóðverja, hefur gert breytingu á liði sínu ...
Christian Prokop, landsliðsþjálfari Þjóðverja, hefur gert breytingu á liði sínu fyrir leikinn við Ísland í kvöld, breytingu sem styrkir liðið. AFP

Christian Prokop, landsliðsþjálfari Þýskalands í handknattleik karla, hefur gert eina breytingu á landsliðshópi sínum fyrir leikinn við íslenska landsliðið í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í kvöld. Með breytingunni kemur að minnsta kosti aukin reynsla inn í þýska liðið.

Örvhenta skyttan Kai Häfner var í morgun tilkynntur til mótsstjórnar heimsmeistaramótsins sem nýr leikmaður í þýska liðinu í stað Franz Semper. Semper sem leikur með Leipzig og er 21 árs gamall á 10 landsleiki að baki. Häfner er mun reyndari og var m.a. í liði Þýskalands sem varð Evrópumeistari fyrir þremur árum og skoraði m.a. sigurmarkið gegn Noregi í undanúrslitaleiknum, 34:33.

Häfner leikur dagsdaglega með Hannover-Burgdorf.

Steffen Weinhold, leikmaður Kiel, sem meiddist á dögunum, er sagður hafa náð sér nægilega vel til þess að vera klár í slaginn gegn íslenska landsliðinu í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.30.

mbl.is