Dramatík hjá Aroni og Patreki

Robert Weber var öflugur og skoraði 9 mörk gegn Barein.
Robert Weber var öflugur og skoraði 9 mörk gegn Barein. AFP

Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans í austurríska landsliðinu í handknattleik unnu í dag tveggja marka sigur gegn Aroni Kristjánssyni og lærisveinum hans í Barein þegar liðin mættust í leik um 19. sætið á HM í handknattleik í Kaupmannahöfn en leiknum lauk með 29:27-sigri Austurríkis.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 17:17 í hálfleik. Mikil spenna ríkti á lokamínútum leiksins en Barein leiddi með einu marki þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Austurríki reyndist hins vegar sterkari aðilinn á lokamínútum og niðurstaðan því tveggja marka sigur Austurríkis.

Jasim Alsalatna var markahæstur í liði Barein með 6 mörk en hjá Austurríki var það Robert Weber sem skoraði 9 mörk. Patrekur Jóhannesson og lærisveinar hans ljúka því keppni í 19. sæti heimsmeistaramótsins en Aron Kristjánsson og Barein þurfa að gera sér að góðu að ljúka leik í 20. sæti.

mbl.is