Fer fyrst og fremst í reynslubankann

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. AFP

„Við getum lítið á það sem svo að liðið steig eitt skref á þroskabraut sinn í þessum leik,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir að íslenska landsliðið tapaði með níu marka mun, 31:22, fyrir heimsmeisturum Frakka í millriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í Köln í kvöld.

„Það var greinilegur skrekkur í mönnum á upphafsmínútunum sem er kannski ekki skrýtið þegar litið er til þess að við vorum án tveggja af reyndustu mönnum að þessu sinni,“ sagði Guðmundur Þórður en íslenska liðið lenti 6:0 undir eftir 12 mínútur áður en það skoraði sitt fyrsta mark.

„Við náðum að hrista skrekkinn af okkur og við tóku átján frábærar mínútur fram að hálfleik, bæði í vörn og sókn. Ég var virkilega stoltur af liðinu á þeim tíma. Það lék virkilega góðan handbolta á báðum endum vallarins auk þess sem markvarslan var til fyrirmyndar. Upphafskaflinn í síðari hálfleik var einnig ágætur en því miður tókst ekki að fylgja honum eftir. Á endanum fer þessi leikur í reynslubankann og er ómetanlegur fyrir þessa ungu drengi sem hafa fengið tækifæri til þess að spreyta sig gegn heimsmeisturunum á heimsmeistaramóti, á þessu stóra sviði,“ sagði Guðmundur Þórður sem leggur áherslu á leikurinn í kvöld er bara eitt skref á lengri leið íslenska landsliðsins á næstu árum.

„Okkar áætlanir hafa ekkert breyst. Við erum með þriggja ára áætlun við að byggja upp þetta lið og nokkra fleiri í kringum hópinn. Þetta er aðeins upphafskaflinn á lengri leið,“ sagði Guðmundur.

Haukur Þrastarson, 17 ára gamall Selfyssingur, lék stóran hluta leiksins í sóknarleik íslenska liðsins í sínum fyrsta leik á HM. Guðmundur Þórður sagðist ekki hafa hikað við að tefla honum fram í kvöld.

„Þessi leikur er ómetanlegur fyrir Hauk. Hann hefur verið með okkur allan tímann hér í Þýskalandi og séð hvernig aðstæður eru. Það er einnig reynsla. Nú kom hann inn í liðið í fyrsta sinn í leik og lék mjög vel,“ sagði Guðmundur Þórður og þótti mikið koma til Hauks og frammistöðu hans.

Fram undan er tveggja daga frí frá leikjum hjá íslenska liðinu sem hefur leikið fjóra leiki á fimm dögum. Síðasti leikurinn verður á móti Brasilíu á miðvikudaginn.

„Það hefur reynt gríðarlega á hópinn auk þess sem við höfum misst út tvo af okkar reynslumestu og bestu leikmönnum á mótinu. Það er meira en að segja það. Nú fáum við tveggja daga frí til þess að byggja okkur upp fyrir leikinn við Brasilíu, leik sem við viljum að sjálfsögðu vinna og stefnum á það,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við mbl.is í Lanxess-Arena í Köln í kvöld.

mbl.is