Lékum oft eins og þeir vildu

Aron Pálmarsson sækir að þýsku vörninni snemma leiks í gærkvöld.
Aron Pálmarsson sækir að þýsku vörninni snemma leiks í gærkvöld. AFP

„Það dugir ekki að skora 19 mörk gegn Þjóðverjum til að vinna þá,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, í samtali við mbl.is eftir fimm marka tap fyrir Þýskalandi í fyrsta leiknum í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Lanxess-Arena í gærkvöld, 24:19.

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur í sókninni og þess vegna fór sem fór. Oft og tíðum lékum við alveg eins Þjóðverjar vildu, það er við sóttum inn á miðjuna þar sem þeir eru sterkastir í stað þess að nýta breidd vallarins,“ sagði Aron sem meiddist um miðjan fyrri hálfleik og kom ekkert meira við sögu eftir það.

Hvort Aron heldur áfram að leika með íslenska landsliðinu á HM vegna nárameiðslanna sem hann hlaut ætti að skýrast fyrir hádegi í dag en íslenska landsliðið mætir heimsmeisturum Frakka í Lanxess-Arena í kvöld kl. 19.30.

mbl.is