Meðalaldur landsliðsins lækkar verulega

Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson, Gísli Þorgeir Kristjánsson.
Elvar Örn Jónsson, Haukur Þrastarson, Gísli Þorgeir Kristjánsson. mbl.is/Hari

Eftir breytingarnar sem Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, varð að gera á landsliðinu í morgun lækkaði talsvert meðalaldurinn í hópnum við að Haukur Þrastarson og Óðinn Þór Ríkharðsson komu inn í stað Arnórs Þórs Gunnarssonar og Arons Pálmarssonar.

Ef blaðamanni skriplar ekki á skötu með reiknistokkinn þá er meðalaldur hópsins nú með Hauk og Óðin Þór innanborðs 23,6 ár. Án þeirra og með Arnóri Þór og Aroni var meðalaldurinn 24,9 ár.

Haukur er yngsti leikmaður hópsins sem mætir Frökkum í Lanxess-Arena í kvöld í annarri umferð milliriðlakeppninnar, 17 ára, fæddur í apríl 2001. Hann er yngsti leikmaður sem íslenska landsliðið hefur teflt fram á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. Gísli Þorgeir er næstyngstur, 19 ára. Björgvin Páll er sem fyrr elsti leikmaður hópsins, 33 ára.

Viðureign Frakka og Íslendinga hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert