Rod fór á kostum í sigri Norðmanna

Magnus Rod átti frábæran leik í liði Norðmanna og skoraði …
Magnus Rod átti frábæran leik í liði Norðmanna og skoraði tíu mörk. AFP

Magnus Rod fór á kostum fyrir Noreg þegar liðið mætti Egyptalandi í milliriðli 2 á HM í handknattleik í Herning í kvöld þar sem Norðmenn unnu fjögurra marka sigur, 32:28, en Rod skoraði 10 mörk í leiknum. Egyptar komust í 3:0 snemma leiks en þá vöknuðu Norðmenn og þeir leiddu með tveimur mörkum í hálfleik. 

Norðmenn náðu mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik en alltaf komu Egyptar til baka. Egyptum tókst að minnka muninn í tvö mörk undir lok leiksins í 29:27 en lengra komust þeir ekki og Norðmenn unnu að lokum sanngjarnan sigur. Eins og áður sagði var Rod atkvæðamestur í liði Norðmanna með 10 mörk en Ahmed Elahmar og Mohammad Sanad voru markahæstir í liði Egypta með fjögur mörk hvor.

Þá mættust Serbía og Argentína í leik um 17. sæti HM í Kaupmannahöfn þar sem Argentína vann tveggja marka sigur, 30:28. Lazar Kukic var markahæstur í liði Serbíu með sjö mörk en hjá Argentínu var það Federico Gaston Fernandez sem átti stórleik og skoraði tíu mörk úr tíu skotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert