Sóknarleikurinn var stirður

Ólafur Andrés Guðmundsson t.v. reynir að stöðva Steffen Fäth í …
Ólafur Andrés Guðmundsson t.v. reynir að stöðva Steffen Fäth í leiknum í Köln í gærkvöld. AFP

„Sóknarleikurinn var stirður hjá okkur og lausnir okkar gegn vörn Þjóðverja voru ekki nógu góðar,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í gærkvöldi eftir fimm marka tap íslenska landsliðsins fyrir þýska landsliðinu í fyrsta leik liðanna í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í Lanxess-Arena í Köln í gærkvöld, 24:19.

„Síðan fannst mér að þegar við unnum af þeim boltann og áttum möguleika á að refsa þeim með hröðum upphlaupum þá gerðum við allt of mörg mistök, fengum á okkur ruðninga, létum verja frá okkur eða skutum í stangirnar eða þá að sendingar manna á milli voru slakar. Það var dýrt því oftar en ekki svöruðu Þjóðverjar með marki eftir hraðaupphlaup í kjölfarið á mistökum okkar. Við hefðum getað komið okkur betur inn í leikinn með því að spila betur úr þeim stöðum sem komu upp oft í leiknum,“ sagði Ólafur Andrés sem stóð í ströngu í leiknum í kvöld, jafnt í vörn sem sókn.

„Þjóðverjar keyrðu okkur aldrei á kaf. Við vorum enn inni í leiknum þegar kortér var eftir og áttum möguleika einu sinni á minnka muninn í eitt mark.  Fyrst og síðast var sóknarleikurinn okkur að falli,“ sagði Ólafur Andrés Guðmundsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í Köln í gærkvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert