Strákarnir voru óhræddir gegn meisturunum

Yngsta landslið sem Ísland hefur sent til leiks á heimsmeistaramóti tapaði með reisn fyrir heimsmeisturum Frakka, 31:22, í öðrum leik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Lanxess-Arena í kvöld. Meðalaldur liðsins er 23,6 ár og lengi vel var meðalaldur þeirra sem báru leik Íslands uppi ekki nema ríflega 20 ár. Ungstirnið Haukur Þrastarson lék stærstan hluta leiksins og skoraði tvö mörk úr þremur skotum. Hans fyrsti leikur á heimsmeistaramóti.

Þriðji og síðasti leikur Íslands í milliriðlakeppninni verður við Brasilíumenn á miðvikudag, einnig í Köln.

Leiksins verður sérstaklega minnst fyrir það en einnig vegna einstaklega ungs liðs Íslands í þessum leik.

Franska liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11.

Frakkar voru með yfirhöndina allan leikinn eins og við mátti búast enda voru þeir meira og minna með stórsveit sína á leikvellinum, að minnsta kosti þegar mest á reyndi við upphaf fyrri og síðari hálfleiks. Ljóst var að Didier Dinart tók leikinn alvarlega. Ætlaði ekki að láta nein óhöpp eiga sér stað.

Guðmundur Þórður Guðmundsson var óhræddur að tefla fram ungu leikmönnunum og leyfa þeim að gera mistök í bland við annað og betra. Þannig verða þeir jú bara aðeins betri.

Byrjunin var erfið hjá íslenska liðinu, eins og við mátti búast. Bryjunarliðið var í kringum 22 ára aldur að jafnaði. Ágúst Elí Björgvinsson byrjaði óvænt í markinu og komst strax í gang auk þess sem varnarleikurinn var öflugur og ljóst að menn ætluðu að selja sig dýrt gegn ofureflinu sem flaggaði m.a. Nikola Karabatic, jafnt í vörn sem sókn. Frakkar komust í 4:0 á fyrstu átta mínútum leiksins, þar af skoruðu þeir tvö mörk yfir endilangan völlinn meðan íslenska liðið var manni færra. Tvisvar sinnum var liðið manni færra á fyrstu 12 mínútunum.

Sóknarleikurinn gekk ekki sem skyldi og Vincent Gerard, markvörður Frakka, virtist hafa leikmenn íslenska liðsins í vasanum, hvaðan sem skotið var.  Elvar Örn Jónsson braut loksins ísinn eftir 12 mínútur og 22 sekúndur, 6:1. Sigvaldi Björn Guðjónsson bætti öðru marki við nokkru síðar eftir hraðaupphlaup og markvörslu Ágústs. Þjóðverjar fögnuðu með Íslendingum.

Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 8:2 fyrir Frakka og kom Haukur Þrastarson í fyrsta sinn inn á leikvöllinn á HM. Hann lék með félögum sínum frá Selfossi, Teiti Erni og Elvari Erni í sókninni. Söguleg staðreynd sem er ekki síst merkileg þar sem þeir eru náskyldir.

Hið unga íslenska lið vann sig smátt og smátt inn í leikinn. Teitur Örn var óhræddur að taka af skarið og skoraði m.a. þrjú mörk á skömmum tíma. Staðan var 12:8, eftir 23 mínútur og þá gafst möguleiki á að minnka muninn í þrjú mörk. Sá möguleiki nýttist ekki og Frakkar rykktu frá aftur.

Haukur skoraði sitt fyrsta HM-mark á 29. mínútu með þrumuskoti úr kyrrstöðu, tíunda mark Íslands. Minnkaði hann muninn í fimm mörk. Það mátti heyra klið fara um salinn þegar strákurinn hamraði boltann í netið án þess að Gerard vissi hvaðan á sig stóð veðrið. Ágúst Elí hélt áfram góðum leik sínum í markinu og varði í næstu sókn Frakka. Ágúst var með 41% hlutfallsmarkvörslu í fyrri hálfleik. Ýmir Örn skoraði ellefta mark Íslands rétt áður en fyrri hálfleik lauk, staðan 15:11. Sannarlega góð frammistaðan hjá strákunum. Þeir létu erfiða byrjun ekki slá sig út af laginu, öðru nær.

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Arnar Freyr Arnarsson skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og þar með var munurinn kominn niður í tvö mörk, 15:13. Frakkar sýndu enga miskunn. Þeir stilltu upp stórskotaliði með Karabatic-bræðrum, Luduvig Fábregas, Nedim Remili, Michael Guigou og fleirum á upphafsmínútum. Þar var við ramman reip að draga enda dró í sundur með liðunum á ný, 20:14, eftir tíu mínútna leik.

Elvar Örn Jónsson skoraði sautjánda mark Íslands, staðan 23:17, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

Sá munur og ríflega það hélst nánast til leiksloka.

Fyrst og síðast var leikurinn gríðarleg prófraun fyrir kornungt íslenskt landslið. Það var borið uppi af mönnum frá 17 til 22 ára aldurs nánast frá upphafi, jafnt í vörn sem sókn. Liðið aflaði sér virðingar með því að leika af krafti allt til leiksloka, leggja aldrei árar í bát þótt syrti oft í álinn, ekki síst á upphafsmínútunum. Engin virðing var borin fyrir heimsmeisturunum. Framtíðin var björt hjá íslenska landsliðinu. Enn birti yfir henni í kvöld.

Ísland 22:31 Frakkland opna loka
60. mín. Frakkland tekur leikhlé 25 sekúndur eftir.
mbl.is