Verðum að læra og læra hratt

Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. AFP

„Eitt að því sem hefur einkennt okkur í mótinu er að við gefumst aldrei upp, hvernig sem gengur enda kemur ekki til greina að gefast upp,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is í kvöld, eftir níu marka tap íslenska landsliðsins fyrir heimsmeisturum Frakka, 31:22, í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins.

Miklar sveiflur voru í leik Íslands en á köflum náði liðið góðum sprettum. „Því miður var sigur Frakkanna aðeins of stór. Ég hefði viljað standa aðeins betur í þeim. Við vorum fjórum mörkum undir í hálfleik eftir að hafa varla verið með fyrstu tíu mínúturnar og lent 6:0 undir. Við getum gert betur á öllum sviðum, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Ýmir og að margs konar lærdóm megi draga af þessum leik. Til dæmis vanti meiri yfirvegun í leiknum og að menn lesi betur í aðstæður hverju sinni. „Stundum vorum við allt of fljótir á okkur í sókninni.

Við ætlum okkur ekki að fela okkur á bak við þá staðreynd að endurnýjun er að eiga sér stað. Þjálfarinn telur okkur vera tilbúna og við teljum svo einnig vera. Þá er bara að spila og standa sig og læra um leið, fljótt og hratt. Næsti leikur er mikilvægur. Við förum inn í alla leiki til þess að vinna. Nú fáum við tvo daga til þess að búa okkur undir lokaleikinn við Brasilíu sem hefur leikið vel á mótinu,“ sagði Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik.

mbl.is