Fjórir leikir á HM í dag

Mikkel Hansen og Danir geta komist ansi nálægt undanúrslitum í …
Mikkel Hansen og Danir geta komist ansi nálægt undanúrslitum í dag. AFP

Milliriðlar heimsmeistaramótsins í handknattleik standa nú sem hæst og í dag fara fram fjórir leikir í milliriðlunum tveimur.

Í milliriðli I, riðli Íslands, sem leikinn er í Köln eru tveir leikir á dagskrá. Spánverjar mæta Brasilíu klukkan 17 en Króatía mætir Þýskalandi klukkan 19.30. Brasilía kom flestum á óvart og vann Króatíu í gær, 29:26, og geta náð upp í þriðja sæti riðilsins með því að vinna Spán. Þriðja sætið gefur þátttökurétt í leiknum um fimmta sæti mótsins.

Þjóðverjar geta svo komist á toppinn í riðlinum með jafn mörg stig og Frakkar, sem unnu okkur Íslendinga í gær. Frakkar hafa sjö stig á toppnum en Þjóðverjar fimm og eiga leikinn í dag til góða.

Í milliriðli II er Norðurlandaslagur þegar Svíþjóð, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, mætir Noregi í Herning klukkan 17. Svíar eru með sex stig eins og Danir í efstu sætum riðilsins, en Norðmenn eru með fjögur stig og þurfa nauðsynlega sigur til þess að eiga von um að komast í undanúrslit mótsins.

Danir mæta svo Egyptum klukkan 19.30 og geta komist ansi langt með því að tryggja sæti sitt í undanúrslitum. Egyptar eru með eitt stig í riðlinum, tveimur stigum á eftir Ungverjum sem eru í fjórða sætinu. Túnis er svo án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert