Sterbik settur aftur út úr hópi Spánverja

Arpad Sterbik í leiknum við Frakka á laugardag.
Arpad Sterbik í leiknum við Frakka á laugardag. AFP

Markvörðurinn Arpad Sterbik er aftur farinn út úr spænska landsliðshópnum í handknattleik á heimsmeistaramótinu sem nú stendur yfir, en hann var kallaður inn í hópinn fyrir helgi.

Sterbik kom inn í hópinn á laugardag fyrir viðureignina gegn Frökkum í fyrsta leik Spánverja í milliriðli. Hann leysti Rodrigo Corrales af hólmi, en hann hafði meiðst á æfingu daginn fyrir leik. Nú hefur Corrales hins vegar jafnað sig af meiðslunum og endurheimt sæti sitt í hópnum á kostnað Sterbik. Næsti leikur Spánverja er gegn Brasilíu í dag.

Sterbik varði 11 skot á móti Frökkum þegar Spánverjar töpuðu 33:30, en hann hef­ur um langt ára­bil verið einn allra besti markvörður heims. Hann þekkir það að koma inn í landsliðið seint á stórmótum og kom meðal annars inn í spænska hópinn fyrir undanúrslitin á EM í fyrra og fór á kostum þegar Spánverjar urðu Evrópumeistarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert