Þjóðverjar og Frakkar í undanúrslit

Þjóðverjar fagna eftir sigurinn gegn Króötum í kvöld.
Þjóðverjar fagna eftir sigurinn gegn Króötum í kvöld. AFP

Þjóðverjar og heimsmeistarar Frakka tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í handknattleik.

Þjóðverjar höfðu betur gegn Króötum 22:21 í æsispennandi leik í milliriðli 1 í Köln í kvöld. Með sigrinum tryggðu Þjóðverjarnir sér sæti í undanúrslitunum og sigur þeirra gerði að verkum að Frakkar eru einnig komnir áfram. Frakkar og Þjóðverjar hafa 7 stig fyrir lokaumferðina á miðvikudag en Króatar og Spánverjar eru með 4 stig.

Staðan var 11:11 í hálfleik en í seinni hálfleik náðu Þjóðverjar að komast þremur mörkum yfir. Króatarnir neituðu að gefast upp og náðu eins marks forskoti en vel studdir af áhorfendum Lanxess Arena reyndust Þjóðverjarnir sterkari á endaprettinum.

Mörk Króatíu: Igor Karacic 4, Manuel Strlek 4, Marin Sipic 3, Domagoj Duvnjak 2, Luka Stepancic 2, Zlatko Horvat 2, Zljko Musa 2, David Mandic 1, Jakov Vrankovic 1.

Mörk Þýskalands: Fabian Wiede 6, Uwe Gensheimer 4, Hendrik Pekeler 3, Steffen Fath 2, Kai Hafner 2, Fabian Bohm 2, Jannik Kohlbacher 2, Patrick Wiencek 1.

Þriggja liða barátta

Danir stigu stórt skref í átt að undanúrslitunum með því að vinna sex marka sigur gegn Egyptum 26:20 í milliriðli 2. Egyptar stóðu í Dönunum fram í byrjun seinni hálfleiks en þá tóku Danir völdin og innbyrtu öruggan sigur en staðan í hálfleik var 9:7 Dönum í vil.

Mörk Egyptalands: Ali Zeinelabedin 6, Ahmed Elahmar 4, Yahia Omar 3, Eslam Eissa 2, Omar Hagag 2, Wisam Nawar 2, Mohamed Shebib 1.

Mörk Danmerkur: Anders Zachariassen 5, Mikkel Hansen 5, Lasse Svan 4, Magnus Landin 4, Nikolaj Oris 3, Mads Mensah 2, Simon Hald 2, Rasmus Lauge 1.

Danir hafa 8 stig í efsta sæti en Norðmenn og Svíar eru með 6. Í lokaumferðinni mætast Danmörk og Svíþjóð annars vegar og hins vegar Noregur og Ungverjaland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert