Danir og Norðmenn í undanúrslitin

Mikkel Hansen að skora eitt af sex mörkum sínum fyrir …
Mikkel Hansen að skora eitt af sex mörkum sínum fyrir Dani í kvöld. AFP

Danir og Norðmenn tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitunum á heimsmeistaramótinu í handknattleik.

Í undanúrslitunum í Hamborg á föstudaginn mætast annars vegar Danmörk og Frakkland og hins vegar Þýskaland og Noregur. Það er því möguleiki á að Frakkar og Norðmenn leiki til úrslita eins og í Frakklandi fyrir tveimur árum þegar Frakkar tryggðu sér heimsmeistaratitilinn.

Í Herning í Danmörku unnu Danir sigur gegn Svíum 30:26 og tryggðu um leið Norðmönnum farseðilinn í undanúrslitin. Staðan var jöfn 13:13 í hálfleik en þegar líða tók á seinni hálfleikinn náðu Danir frumkvæðinu.

Mikkel Hansen var markahæstur í liði Dana með 6 mörk og Magnus Landin kom næstur með 5 mörk en maður leiksins var markvörðurinn Nicklas Landin. Hjá Svíum var hornamaðurinn Jerry Tollbring atkvæðamestur með 8 mörk. Svíar leika við Króata um 5. sætið á mótinu.

Þjóðverjar tryggðu sér efsta sætið í milliriðli 1 með sigri gegn Spánverjum 31:30. Þjóðverjar voru skrefinu á undan Spánverjum allan leikinn í Köln en í hálfleik höfðu Þjóðverjar eins marks forystu 17:16. Fabian Bohm skoraði 5 mörk fyrir Þjóðverja og Tim Suton 4 en hjá Spánverjum, sem mæta Egyptum í leiknum um 7. sætið, var Alex Dujshebaev markahæstur með 6 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert