Heimsmeistararnir hylltir á Ráðhústorginu

Danir fagna heimsmeistaratitlinum í gær.
Danir fagna heimsmeistaratitlinum í gær. AFP

Nýkrýndir heimsmeistarar Dana í handbolta verða hylltir á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í dag en sannkölluð þjóðhátíðarstemning er í Danmörku eftir að karlalandsliðið vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil með því að vinna Norðmenn í úrslitaleik í Herning í gær.

Danska landsliðið er nýlent á Kastrup-flugvellinum. Þaðan verður ekið í strætisvagni í áttina að Ráðhústorginu þar sem búist er við því að fjöldi fólks fagni hetjunum sínum þegar þeir stíga út á svalirnar í ráðhúsinu.

Danir eru nú ríkjandi heims- og ólympíumeistarar og munu eflaust gera atlögu að Evrópumeistaratitlinum eftir ár en Evrópumótið á næsta ári verður haldið í þremur löndum, Noregi, Svíþjóð og Austurríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert